152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

sala á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka.

[13:59]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegur forseti. Ég skal reyna að halda mig innan tímamarka, innan ræðutíma. Ég verð að byrja á því að þakka hv. málshefjanda Oddnýju G. Harðardóttur fyrir að taka umræðuna við hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra og ég vil líka þakka hennar greinargóðu svör hér áðan. Traust og gagnsæi eru stærstu þættirnir sem standa eftir hjá mér eftir að hafa farið í gegnum þetta í fjárlaganefnd, fyrir þessa sölu ríkisins, og í þeirri umræðu og þeirri vinnu sem hefur átt sér stað eftir að salan átti sér stað. Þar er vissulega mikil brotalöm og ég er alveg klár á því að einn stærsti þátturinn sem við sem sitjum í fjárlaganefnd höfum upplifað, er að við — jú, við fengum ákveðnar upplýsingar til okkar um það ferli sem átti að eiga sér stað. En það virðist stundum vera þannig að sumum er það ekki alveg í lófa lagið, þó að menn séu virkilega klárir í því sem þeir eru að gera, að koma skilaboðum á framfæri til þeirra sem eru að fjalla um málið á skilmerkilegan hátt og þannig að það skiljist. Það er einn stærsti þátturinn í þessu máli sem mér finnst vera afskaplega ábótavant. En Ríkisendurskoðun og Seðlabanki Íslands eru að fara yfir málið og við skulum spyrja að leikslokum, þegar þeim rannsóknum er lokið.