152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

sala á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka.

[14:01]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Íslandsbanki er verðmætur banki. En hvers vegna skyldi hann vera svona verðmætur? Vitum við hvers vegna eru öll þessi auðævi og hvers vegna allir vilja kaupa þennan banka? Hvað var inni í þessum banka? Jú, það var sett inn í hann eftir bankahrunið. Það voru settar eignir. Hversu margar eignir voru þarna inni sem voru teknar af fólki? Hefur það verið gert upp? Hefur það verið rannsakað? Nei. Þess vegna þurfum við rannsóknarnefnd Alþingis. Við þurfum að klára bankahrunið. Það hefur aldrei verið klárað. Þess vegna var Flokkur fólksins á móti þessari sölu. Við vorum ekki tilbúin. Það sannaðist, svart á hvítu, á því sem er búið að fara fram hér á undanförnum dögum. Þessi sala er klúður frá A til Ö. Það sem er kannski merkilegast af öllu er að í þessari nefnd, ráðherranefnd um efnahagsmál, eru þrír ráðherrar og þeir voru allir með efasemdir um þetta. Ekkert bókað en þeir voru með efasemdir. Þetta fór samt fram. Þá spyr ég: Hvers vegna? Fyrst það er ekki neinn trúnaður á þessum nefndarfundum hefði ekki verið bara frábært að hafa þennan nefndarfund opinn og ef það verður fundur í framtíðinni að hafa hann þá opinn? Þá væri allt uppi á borði. En staðreyndin er sú að það er klúður frá A til Ö og Bankasýslan sýnir ótrúlegan dómgreindarbrest. Það er matarboð, það er kvöldverðarboð, það er vín og konfekt. Hvað næst? Gull út á matinn? Gull í hádeginu í matarboðinu, gull seinni partinn í matarboðinu?