152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

niðurstöður úttektar á stöðu og áskorunum í orkumálum með vísan til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum, munnleg skýrsla umhverfis-, orku og loftslagsráðherra. - Ein umræða.

[15:26]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fyrir framsöguna og að efna til umræðunnar. Þá vil ég jafnframt þakka fyrir þessa vinnu sem lagt var í að frumkvæði ráðherrans í ljósi aukinnar og þyngri umræðu um orkumál á undanförnum misserum. Í desember síðastliðnum má kannski segja að umræða um skort á raforku og afhendingaröryggi hafi náð ákveðnum þunga þótt vissulega hafi minna farið fyrir nýlegri frétt Landsvirkjunar þar sem tilkynnt var um að fyrirtækið hefði lagt af skerðingum. En gott og vel.

Ég fagna því að ráðherra hafi haft frumkvæði að þessari vinnu og að safna saman upplýsingum í þessa stöðuskýrslu sem hæstv. ráðherra hefur margoft bent á að er ekki stefnuskjal, nú síðast hér í upphafi máls síns. Ég held að efni hennar sé ágætt inn innlegg í mikilvæga umræðu. Í skýrslunni eru settar fram sex sviðsmyndir eins og hæstv. ráðherra kom inn á, þær sviðsmyndir sem lágu fyrir þegar vinna starfshópsins stóð yfir. Ljóst er af umræðunni í framhaldi af skýrslunni eða eftir útkomu skýrslunnar að ekki þótti öllum dregin upp raunhæf mynd af stöðunni, að þarna hefði verið hægt að teikna upp fleiri sviðsmyndir sem hafa jafnvel verið í umræðunni áður þó að þær hafi sannarlega ekki legið fyrir með sama hætti og birt er í þessari skýrslu. Ég tel þá gagnrýni eðlilega og í rauninni viðbúna. Aukinn þungi og skilningur á loftslagsáhrifum og nauðsyn þess að brugðist sé við með hraði hefur átt sinn þátt í því að koma þessari umræðu á skrið og það er vel þótt sannarlega séu uppi skiptar skoðanir. Það er heilbrigt og ber vott um gagnrýna hugsun sem er allri umræðu holl og mikilvæg.

Virðulegi forseti. Í stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs segir, með leyfi forseta:

„Við viljum skapa sátt um nýtingu auðlinda. Við leggjum áherslu á baráttuna við loftslagsbreytingar með samdrætti í losun, orkuskiptum og grænni fjárfestingu. Um leið er það verkefni okkar að búa íslenskt samfélag undir aukna tæknivæðingu auk þess að tryggja áframhaldandi lífskjarasókn allra kynslóða. Áhersla verður lögð á jafnvægi efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta.“

Í sáttmálanum segir jafnframt, með leyfi forseta:

„Orkuskipti eru ríkur þáttur í framlagi Íslands til að ná árangri í baráttunni við loftslagsvána samhliða því að styrkja efnahagslega stöðu landsins og verða í forystu í orkuskiptum á alþjóðavísu. Byggt verður á nýlegri orkustefnu þar sem hagsmuna núverandi sem komandi kynslóða er gætt og sjálfbær þróun er höfð að leiðarljósi með jafnvægi milli efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta.“

Virðulegi forseti. Hér má merkja stef og það er ekki að ástæðulausu sem brýnt er að horfa til efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta. Það er grunnurinn í hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar sem við höfum undirgengist að leggja til grundvallar í allri ákvarðanatöku. Við höfum um margt staðið okkur vel og tamið okkur hugmyndafræðina en betur má ef duga skal. Maðurinn hefur í sögulegu samhengi gengið mjög freklega á gæði jarðar, svo freklega að víða stefnir í óefni ef aukinn þungi er ekki lagður á það mikilvæga markmið að tryggja sjálfbæra þróun. Einn þáttur sjálfbærrar þróunar, hinn samfélagslegi, hefur nefnilega margar víddir. Mér hefur oft fundist, virðulegur forseti, að mörg horfi til hagvaxtar sem hins eina mælikvarða á samfélagslegan hagnað. Samfélagslegur hagnaður, ef svo má segja, er líka mældur í velsæld. Velsældin felst í svo mörgu öðru en að hægt sé að telja krónurnar einar.

Í stjórnarsáttmálanum segir jafnframt, með leyfi forseta, svo ég haldi nú áfram að vitna í annars ágætan stjórnarsáttmála:

„Sátt verður að ríkja um nýjar virkjanir til að byggja upp grænt og kolefnishlutlaust samfélag. Mestu skiptir að það verði gert af varfærni gagnvart viðkvæmri náttúru landsins og í takt við vaxandi orkunotkun samhliða útfösun jarðefnaeldsneytis, til að mæta fólksfjölgun og þörfum grænnar atvinnuuppbyggingar. Einnig þarf að horfa til betri orkunýtingar, minnka tap í orkukerfinu og bæta nýtingu í virkjunum sem fyrir eru.“

Og inn á mikilvægi samfélagslegrar sáttar um vernd og orkunýtingu landsvæða og náttúruauðlinda er komið í téðri skýrslu. Sátt í samfélagi um nýtingu sameiginlegra gæða stuðlar tvímælalaust að velsæld samfélagsins þótt sáttin verði ekki metin til fjár. Þetta er pólitísk sýn sem birtist í stjórnarsáttmálanum. Í þessu samhengi, mikilvægi samfélagslegrar sáttar, hef ég sagt það áður hér í ræðustól Alþingis, og ég geri mér fulla grein fyrir því að hv. þingmenn þekkja forsögu þess máls, að framkvæmdir til orkuöflunar hafa klofið heilu samfélögin niður. Ég vil trúa því og treysta að við sem samfélag, hafandi náð betri skilningi og tökum á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, séum lengra komin í skilningi á mikilvægi samfélagslegrar sáttar þannig að við ráðumst ekki svo freklega fram og göngum svo á gæði jarðar að eftir standi samfélögin nánast sem brunarústir einar.

Því er gjarnan fleygt fram í þessari umræðu að við náum aldrei fullkominni sátt en ég held við höfum lært af reynslunni, vil trúa því að við höfum lært af reynslunni, að við þurfum að gera okkar allra besta til að ná eins góðri sátt og hægt er ef við þurfum að afla frekari orku. En það er ekki eini möguleikinn í stöðunni eins og hefur verið komið inn á og skýrslan dregur fram í ýmsum myndum. Það er sannarlega hægt að draga úr sóun, bæta nýtinguna og leggja til að mynda hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins til grundvallar því að fara betur með þá orku sem þegar er framleidd.

Virðulegi forseti. Annar liður í samfélagslegri sátt er sameiginlegur skilningur á orkuþörfinni. Til að honum verði náð þurfum við að vita hverjar hugmyndirnar eru um orkuþörfina og komast að niðurstöðu eftir gagnrýnið samtal um í hvað orkunni skuli varið. Í þessu samhengi er einnig mikilvægt, eins og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir kom inn á í sinni ræðu, að við skiljum á milli orkuþarfar til samkeppnismarkaðarins sem í dag nýtir jú bróðurpartinn af framleiddri orku hérlendis og þeirrar orku sem við viljum tryggja almenningi til afnota. Það hefur verið ríkulega kallað eftir því í umræðunni og hér í þingsalnum, sem ég vil meina að sé merki um að við séum að færast til betri áttar, að lagað sé til í regluverkinu með tilliti til þess að til að tryggja orkuafhendingaröryggi og tryggja öllum sem hér búa orku til almenningsnota, af því þetta er jú notkun á sameiginlegum gæðum. Það þurfi að ráðast í vinnu við breytingar á regluverkinu. Ég held að ég hafi skilið það rétt að sú vinna sé hafin hjá hæstv. ráðherra. Mér þætti vænt um það ef ráðherra hefði tök á því í lok ræðu sinnar að koma örlítið inn á þá vinnu og hvar hún stendur.