152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

niðurstöður úttektar á stöðu og áskorunum í orkumálum með vísan til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum, munnleg skýrsla umhverfis-, orku og loftslagsráðherra. - Ein umræða.

[15:50]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þegar ég var að undirbúa ræðu fyrir þennan dagskrárlið varð mér hugsað til Evrópu. Það ríkir stríð í Evrópu og hefur staðið yfir í tvo mánuði. Búið er að skrúfa fyrir gasið til Póllands og Búlgaríu frá Rússlandi. Rússland réðst inn í nágrannaríki sitt. Rússar búa yfir mjög öflugum vopnum, skriðdrekum og öðrum vopnum sem til þess þarf en þeir búa líka yfir auðlind. Ég fór að hugsa um þetta og hvað við værum heppin með okkar vandamál eða í raun verkefni, vegna þess að þetta eru bara verkefni sem þarf að leysa. Við þurfum bara að nýta orkuna á skynsamlegan og góðan hátt. Það er okkar verkefni í orkumálum Íslendinga.

Virðulegi forseti. Við höfum sett okkur háleit markmið í baráttunni við loftslagsvána. Þeim ætlum við að ná. Nýting raforku á Íslandi er forsenda þess að við getum tekið þátt í loftslagsmarkmiðum þvert yfir landið. Nýting hreinna og sjálfbærra orkugjafa er lykillinn og það vitum við öll. Í aðgerðaáætlun um orkuskipti, sem samþykkt var 2017, er talað um hagræna hvata fyrir neytendur og fyrirtæki við val á vistvænni tækni og orkugjöfum. Í orkustefnu segir að það sé mikilvægt markmið í baráttunni við loftslagsvána að orkuskipti fari fram í lofti, láði og legi. Tækifærin til orkuskipta eru til staðar en til þess að við getum farið í fullkomin orkuskipti þurfum við að lagfæra það sem er annmörkum háð. Flutningsleiðir raforku eru víða takmarkaðar. Í þessu felst mikil sóun á orku sem sleppur frá við flutning hennar frá A til B. Það liggur fyrir að flutningsleiðir þarf að bæta víða á landinu. Þá vil ég sérstaklega vísa til Vestfjarða og norðausturhorns landsins. Kerfisáætlun Landsnets um að styrkja meginflutningskerfi á Vestfjörðum er á langtímaáætlun en í allt of fjarlægri framtíð. Valkostir um virkjanir innan svæðis eru til staðar. Með þeim er hægt að tryggja raforkuöryggi á Vestfjörðum.

Skýrsla um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum gerir grein fyrir orkuþörf þjóðarinnar með vísan til áherslna um markmið stjórnvalda í loftslagsmálum. Í kaflanum um Vestfirði kemur fram að raforkuspá Vestfjarða er ekki talin fanga jákvæðar breytingar á svæðinu. Samkvæmt sóknaráætlun Vestfjarða eru vaxtargreinar á svæðinu m.a. fiskeldi, ferðaþjónusta, sjávarútvegur og orkutengd starfsemi. Orkutengd starfsemi mun í takt við þessa þróun eingöngu vaxa. Þá segir einnig að á komandi árum þurfi m.a. að anna orkuþörf fyrir kalkþörungaverksmiðju í Súðavík, umbúðaframleiðslu fyrir fiskeldi ásamt orkuskiptum. Hvalárvirkjun er sú sem er lengst komin í undirbúning á þessu svæði. Í undirbúningi er vindorkuver í Garpsdal í Reykhólasveit. Gerðar hafa verið ítarlegar tillögur um úrbætur á flutningskerfi svæðisins sem hefur verið hamlandi þáttur í uppbyggingunni.

Á undanförnum árum hefur átak verið gert í endurnýjun dreifikerfis bæði á Vestfjörðum og norðausturhorninu, sem snýr að því að línur hafa verið lagðar í jörðu og uppbygging hefur verið mikil hvað varðar hringtengingu ljósleiðara en það dugar skammt ef flutningi rafmagns inn á svæðið er ábótavant. Við vitum öll að raforka er forsenda fyrir uppbyggingu atvinnu í samfélögum og að orkuskipti eigi sér stað á svæðunum. Skylda Landsvirkjunar til að sjá notendum á landinu fyrir fullnægjandi framboði á raforku var aflögð með raforkulögum árið 2003 en framboð raforku skyldi ráðast af markaðslögmálum.

Skýrslan um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum segir að núgildandi löggjöf mæli ekki fyrir um ábyrgð eða skyldu neins aðila til að sinna almennum markaði en ljóst sé að eftirspurn eftir raforku á almennum markaði hafi vaxið undanfarin ár. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„… starfshópur um orkuöryggi á heildsölumarkaði fyrir raforku benti á þann möguleika að mæla fyrir um alþjónustu í lögum í samræmi við raforkutilskipun ESB nr. 2009/72 þar sem fram kemur að heimili skuli eiga rétt á að fá afhenta raforku af ákveðnum gæðum. Ráðherra hefur falið starfshópi að fylgja eftir tillögum framangreinds starfshóp með tillögum að breytingum á regluverkinu með það að markmiði að tryggja orkuöryggi almennings.“

Virðulegi forseti. Við þurfum að beita hagrænum hvötum í þessum efnum, frekari ívilnunum fyrir almenning og fyrirtæki. Línuívilnun hefur dregist verulega saman á Vestfjörðum og hægt væri að hugsa sér orkuívilnun þess í stað sem rynni til þeirra sem nýttu vistvæna orku. Við þurfum fleiri hagræna hvata til að flýta fyrir orkuskiptum rétt eins og hefur verið í orkuskiptum í samgöngum.

Að lokum vil ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu, mikilvægu umræðu, sem ætti að vera reglulega á þinginu.