152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

niðurstöður úttektar á stöðu og áskorunum í orkumálum með vísan til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum, munnleg skýrsla umhverfis-, orku og loftslagsráðherra. - Ein umræða.

[15:56]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Staðreyndin er sú að miklar breytingar eru í umhverfinu nú þegar, hamfarabreytingar sem ógna tilveru alls mannlífs og dýralífs, ógna öllu lífi á jörðinni. Það erum við þegar farin að sjá mjög skýrt. Þeim breytingum þurfum við öll að mæta og aðlagast með sársaukafullum hætti, en mismikið auðvitað því þær leggjast ekki jafnt á okkur öll. Þó er það þannig að við finnum öll fyrir þeim en í allra verstu aðstæðum þá neyðist fólk til að grípa til örþrifaráða. Í verstu tilvikum neyðist fólk til að flýja eigin heimkynni, flýja veðurhamfarir og hungursneyð. Þess vegna snýst þetta ekki bara um þær skyldur sem við berum gagnvart eigin samfélagi okkar, þetta snýst ekki bara um okkar nærsamfélag, því aðgerðaleysi í þessum málum brýtur gegn þeim siðferðislegu skyldum sem við berum sem manneskjur, brýtur gegn þeim skyldum sem við berum gagnvart öllu mannlífi og framtíðarkynslóðum og þeim skyldum sem við berum gagnvart umhverfinu sjálfu og öllu lífríki þess.

Ísland ætti að vera öllum þjóðum fyrirmynd þegar kemur að loftslagsmálum og fyrst til að verða óháð olíu. Við höfum allt sem þarf. Við eigum endurnýjanlegar orkulindir og möguleika til að auka raforkuvinnslu. Við erum lítil en rík þjóð þar sem almenningur styður metnað í loftslagsmálum. Við höfum á sama tíma nokkuð mikla íhaldsstjórn sem setur þó virðingarverð og metnaðarfull markmið um jarðefnaeldsneytislaust Ísland árið 2040 sem virðist vera orðin tóm, engu að síður. Engin plön, engar aðgerðir. Það er lítið sem bendir til þess að ríkisstjórnin ætli sér að standa við þetta markmið og það er grátleg frammistaða. Íslendingar sem vilja gera vel í loftslagsmálum biðu því spenntir eftir fyrsta útspili nýs umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Hann kynnti stöðuskýrslu á sviði orkumála sem vísa til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum. Skýrslan er gagnleg. Hún dregur vel fram stöðuna og þá miklu áskorun sem felst í því að losna við hvern einasta dropa af jarðefnaeldsneyti á næstu 18 árum. En fyrst og fremst er skýrslan þó áfellisdómur yfir þeim sem fara með stjórn loftslagsmála og orkumála í landinu. Þar er m.a. dregið fram að ekkert samræmi er á milli áherslna í orkumálum annars vegar og loftslagsmálum hins vegar. Leyfismál fyrir nýja orkuvinnslu og styrkingu flutningskerfisins er í ólestri, stuðningur ríkisins við orkuskipti og nýsköpun er í skötulíki. Þetta er árangur íhaldsflokkanna þriggja sem setið hafa við völd frá árinu 2017. Þetta þýðir í raun kyrrstaða, aðgerðaleysi frá árinu 2017.

Það sem vekur síðan athygli við fyrsta útspil nýs ráðherra er að þarna eru engar ákvarðanir, engar aðgerðir og engin plön að finna. Það er auðvitað dæmigert fyrir núverandi ríkisstjórn. Þau þora ekki beint að taka stórar ákvarðanir heldur þrífast best á því að þurfa ekki að taka pólitíska afstöðu. Þetta kann þó að breytast því að það getur verið að staða flokkanna núna innbyrðis sé svolítið að breytast, staða og styrkur þeirra, vegna hneykslismála. Fyrst Framsóknarflokksins í Bændahöllinni og síðan Sjálfstæðisflokksins í gegnum bankasöluna. Það kann að vera að Vinstri græn styrki núna stöðu sína og geti aðeins hreyft til innan raða ríkisstjórnarinnar. Við munum fylgjast með því hvort VG muni nýta þessa stöðu sína.

Loftslagsmál og orkumál eru hins vegar rammpólitísk og þess vegna að mínu mati ræður ríkisstjórnin ekki við þau. Það þarf að taka erfiðar ákvarðanir. Orkuskipti heils samfélags krefjast mikillar orku eins og glögglega kom fram í stöðuskýrslunni. Verður orku forgangsraðað í þágu orkuskipta? Á að minnka orkusölu til núverandi stóriðju eins og t.d. fyrir rafmyntargröft? Hvaða hvatar verða nýttir til að orkuskiptin í sjávarútveginum fari á fullt? Stefnir Ísland á orkusjálfstæði eða verður eitthvað af grænu orkunni flutt inn? Hvað á að virkja mikið og hvar? Það er ágreiningur um þessi lykilatriði innan ríkisstjórnarinnar en þetta eru atriði sem varða framtíð samfélagsins.

Fjöldi greininga hefur legið fyrir um mikla orkuþörf orkuskipta og skýrsla ráðherra dró þær vel saman. En þar er bara hálf sagan sögð. Jafnvel þótt stjórnvöld bregðist hratt og skjótt við og tryggi nægt framboð raforku um ókomna tíð þá verður notandi að vera til til að nota þessa grænu orku. Stjórnvöld á Íslandi verða líkt og víða í Evrópu að styðja við fyrstu skref fyrirtækja og einstaklinga sem ætla að skipta út mengandi orkugjöfum fyrir þá grænu. Þetta hefur gefist vel í rafbílavæðingu fjölskyldubíla og nú er komið að restinni. Það þarf að byggja upp innviði til að hver einasti trukkur, hvert einasta skip, hver einasta flugvél geti farið í orkuskipti. Fyrstu skrefin verða óhagkvæm og ekki á færi allra. Þar þarf ríkið að stíga inn, vinna með atvinnulífinu og brúa bilið fyrst um sinn. Á sama tíma eiga fyrirtæki sem menga að borga í samræmi við það. Myndarleg kolefnisgjöld og grænar ívilnanir hraða orkuskiptum. Tekjur af kolefnisgjöldum ætti síðan að nýta til að styðja við orkuskiptin og koma til móts við heimili sem ráða illa við kostnað vegna þeirra. Það er nefnilega ekki nóg að segja bara virkja, virkja, virkja eins og orðræða sumra bendir til. Stjórnvöld eiga ekki bara að tryggja framboðið, þau verða að gera það og við eigum að gera það á okkar sjálfbæra hátt, heldur þarf græna orkan líka að vera sannarlega nýtt. Orkuskipti færa Íslandi ekki einungis grænna og betra samfélag heldur getum við orðið óháð umheiminum þegar kemur að orkuöflun. Orkusjálfstæði þjóða er núna efst á baugi innan evrópska orkugeirans í kjölfar m.a. innrásar Rússlands í Úkraínu. Við erum lánsöm að innlendir orkugjafar hita og lýsa íslensk heimili en ekki innflutt gas. Evrópusambandið ætlar að hraða verulega sínum orkuskiptum í þágu loftslagsins og orkusjálfstæðis. Við ættum auðvitað að taka ESB til fyrirmyndar í þessu sem og öðru og nýta innlenda orkugjafa til að knýja samfélagið okkar áfram og allar samgöngur til og frá landinu.

Þegar kemur að stærstu ógn okkar tíma þá hreinlega verðum við að gera miklar kröfur. Við verðum að halda okkur á tánum, það er kjarni málsins, því að afleiðingarnar versna í samræmi við aðgerðaleysi okkar. Ísland er auðvitað í kjörinni stöðu til að gera gagn. Við erum velmegunarsamfélag sem býr yfir gífurlegum mannauði og miklum auðlindum. Við höfum margt fram að færa. Hér er mikil þekking og kunnátta sem við getum beitt til góðs. Við höfum líka mikilvæga reynslu sem við getum deilt með öðrum. Nýtum þetta, kæri þingheimur, og tökum stór skref strax.