152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

niðurstöður úttektar á stöðu og áskorunum í orkumálum með vísan til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum, munnleg skýrsla umhverfis-, orku og loftslagsráðherra. - Ein umræða.

[16:13]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Já, það er mikilvægt að við tökum þetta mál upp í þessum sal. Orkumálin eru gríðarstór málaflokkur sem hefur áhrif á alla anga nútímasamfélags. Eins og komið hefur fram greinir grænbókin frá stöðu og áskorunum í orkumálum. Það er ekkert síður mikilvægt að greina stöðuna fyrir framtíðarmöguleika þjóðarinnar til aukins hagvaxtar sem og til að framfylgja markmiðum ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Samkvæmt grænbókinni hafa fjárfestingar í orkuframkvæmdum hingað til ekki fylgt eftir markmiðum í loftslagsmálum og á þessu verða breytingar. Nú segir í skýrslunni að við orkuskiptin bætist orkuþörf til frekari vaxtar atvinnuvega. Nú þegar hefur ýmsum verkefnum sem renna stoðum undir atvinnulíf um land allt verið hafnað á þeim forsendum að enga orku sé hafa. Þetta stendur uppbyggingu um land allt fyrir þrifum og takmarkað hefur verið virkjað á undanförnum árum miðað við eftirspurn. Það er mikilvægt að halda því til haga hér að á þinginu hafa komið fram mál hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsmálaráðherra sem munu, að því gefnu að eitthvað gerist á þessu þingi, koma verulegri hreyfingu á málaflokkinn í fyrsta sinn í langan tíma. Það er t.d. ramminn sem er til umræðu í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og kemur vonandi bráðum aftur hingað í sal, en rammanum hefur ekki tekist að breyta frá 2013, líkt og hefur komið fram í dag. Svo er það mál til stækkunar á virkjunum sem er á dagskrá í dag sem auðvitað hlýtur að vera í þágu náttúruverndarsjónarmiða og er gott mál. Síðan mælti hæstv. ráðherra fyrr í vikunni fyrir breytingu á fyrirkomulagi stuðningskerfis niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar til einmitt betri orkunýtingar.

Það er oft talað um nauðsyn þess að forgangsraða orku en það er engin lausn á vandanum. Það sér hver maður. Ég tala ekki gegn því að forgangsraða. Það er eðlilegt að heimilin í landinu eigi að geta gengið að tryggri afhendingu raforku. Ég hins vegar tel það ekki eitt og sér geta leyst áskoranir okkar í orkuskiptum og það svarar ekki þeim tækifærum sem hér eru. Orkuskipti annars staðar en á einkabílnum ganga of hægt og þar þarf verulegt átak, rannsóknir og þróun. En við þurfum líka að vera tilbúin með orkuna þegar hennar er þörf. Við þurfum t.d. að sjá fyrir okkur að hér verði framleitt vetni á landinu ef lausnin í orkuskiptum verður aukin vetnisnotkun. Að sama skapi ber okkur skylda til að bregðast við þeim athugasemdum sem koma fram í skýrslunni með skjótum og öruggum hætti, þeim athugasemdum sem miða að því að flókið regluverk og tímafrekt leyfisveitingaferli hamli uppbyggingu. Ákallið kemur frá öllum landshlutum og því verður svarað.

Talað er um í þessari ágætu skýrslu að mikilvægt sé að skapa sem mesta samfélagslega sátt um raforkukerfið og orkuþörf samfélagsins. Því get ég svo sannarlega líka verið fylgjandi en upp að vissu marki. Það er nú þannig að orkumál eru loftslagsmál. Við getum ekki sætt okkur við tafir vegna nauðsynlegra aðgerða í þágu loftslagsmála og þess neyðarástands sem ríkir. Ég verð að fá að hvetja hæstv. loftslagsmálaráðherra til dáða í þessum efnum. Í fyrsta lagi var það afar gagnlegt og nauðsynlegt að fara í þá vinnu að greina áskorun okkar í orkumálum og leggja fram hver hin raunverulega staða er. Grænbókin er nákvæmlega það innlegg sem vantaði í umræðuna. Það setur okkur á sama stað, öll á sama stað, án fullyrðinga sem standast enga skoðun. Það sem þessi umræða sýnir okkur enn og aftur er hversu öflugt forystuhlutverk Sjálfstæðisflokkurinn hefur í umhverfis- og loftslagsmálum og við sinnum því bara vel.