152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

niðurstöður úttektar á stöðu og áskorunum í orkumálum með vísan til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum, munnleg skýrsla umhverfis-, orku og loftslagsráðherra. - Ein umræða.

[16:17]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við skýrslu um stöðu og áskoranir í orkumálum með vísan til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum. Við Íslendingar lítum oft á aðgang að orku sem sjálfsagðan hlut sem við munum ævinlega hafa nægan aðgang að án fyrirhafnar eða fórna. Okkur fækkar sem þekkjum það að hafa ekki aðgang að veiturafmagni í daglegu lífi og geta þá t.d. ekki haft rafmagnstæki tengd allan sólarhringinn. Það eru líka að verða færri og færri sem vita að það er ekki náttúrulögmál að alltaf sé heitt vatn í krönunum. Það má segja að á síðustu vikum og mánuðum hafi samfélagið fengið nokkurs konar spark í rassinn í orkumálum eða að viðvörunarljós hafi blikkað um að það stefni í skort á orku til þróunar atvinnulífs og orkuskipta. Þessar viðvaranir hafa m.a. birst í skerðingu á orku til fjarvarmaveitna og fiskimjölsiðnaðarins en þær hafa líka birst í þeim áskorunum sem mörg Evrópuríki standa nú frammi fyrir í orkumálum í kjölfar árásar Pútíns í Úkraínu, og þá standa einstök byggðarlög og landsvæði hér á landi hér eftir sem hingað til frammi fyrir áskorunum varðandi aðgang að orku og afhendingaröryggi.

Sjálfbærni í orkuöflun er mikilvægur liður í sjálfstæði og sjálfræði þjóða, undirstaða fæðuöryggis, þróunar atvinnulífs og þá eru orkuskiptin, sem eru stóra málið á dagskrá stjórnmála heimsins og í velferð heimsins til framtíðar, sem felast í breytingum á orkuöflun og orkunotkun til loftslagsvænna orkugjafa forsenda viðsnúnings í loftslagsmálum.

Góðu fréttirnar úr skýrslunni eru hins vegar þær að við erum á þeim stað að sjá viðvörunarmerkin og höfum svigrúm og tækifæri til að bregðast við. Í stjórnarsáttmála er einmitt lögð áhersla á mikilvægi þess að bregðast við og skýrslan sem við ræðum hér er mikilvægt verkfæri í að framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar.

Allri nýtingu náttúrulegra auðlinda fylgja áskoranir og oft og tíðum erfiðar ákvarðanir. Það að afla og nýta orku eða byggja upp innviði kostar landnotkun og auðlindanotkun.

Virðulegi forseti. Íslenskt samfélag getur ekki ætlast til að aðrar þjóðir fórni sinni náttúru til orkuöflunar fyrir okkur. Það er okkar skylda að leggja til orkuöflunar heimsins, sjá okkur sjálfum fyrir sjálfbærri orku en að sjálfsögðu þurfum við að gera það með minnstu mögulegu neikvæðu umhverfisáhrifum og koma í veg fyrir alla sóun. Þess vegna er áherslan í ríkisstjórnarsáttmálanum um að skapa sátt um nýtingu auðlinda lykilatriði í viðbrögðum við áskorunum. Þar segir einmitt að við leggjum áherslu á baráttuna við loftslagsbreytingar með samdrætti í losun, orkuskiptum og grænni fjárfestingu en áherslan verði lögð á jafnvægi efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta, þ.e. sjálfbærni.

Það þarf að afla meiri orku, það þarf að tryggja orkuflutning og afhendingaröryggi. Við verðum að horfa á stóru myndina en við megum heldur ekki gleyma smærri byggðum og dreifbýlum svæðum og tækifærum til orkuöflunar og flutningi til þeirra. Það er einmitt sá punktur sem mig langar að staldra aðeins við og gleyma ekki mikilvægi þess að efla raforkukerfið, líka dreifikerfið utan meginflutningskerfisins. Það þarf t.d. líka á hringtengingum að halda. Það á t.d. við um utanverðan Tröllaskaga og norðausturhornið og þó að það sé ekki hluti af meginflutningskerfinu og áætlunum varðandi uppbyggingu þess þá má það ekki gleymast.

Það má heldur ekki útiloka neinar leiðir í sjálfbærri orkuöflun og í skýrslunni er margt nefnt, komið inn á mikilvægi hvata til að draga úr raforkuþörf og bent á hvata til að nota varmadælur og viðarkyndingu. Það er einmitt mjög margt spennandi að gerast í samfélaginu við orkuöflun, bætta nýtingu og samþættingu ólíkra verkefna.

Mig langar að fara aðeins ofan í mál sem ég kom inn á í umræðum um annað mál hér í fyrrakvöld af því nú er ég búin að afla mér aðeins betri upplýsinga. Þegar skerða þurfti orkuafhendingu á nýliðnum vetri var úrgangstimbur notað við að kynda fjarvarmaveitu í Neskaupstað og þar snarminnkaði þörfin fyrir olíubrennslu. Þar er starfrækt fyrirtæki sem vinnur viðarperlur eða köggla úr úrgangstimbri sem síðan er brennt í sérstökum ofni sem skapar hita með lágmarks umhverfisáhrifum. Slíkar kyndistöðvar eru orðnar algengari í Evrópu og það er bæði hægt að nýta úrgangsvið eða grisjunarvið eða aðrar skógarafurðir til að framleiða perlurnar. Bæði í Fljótsdal og á Hallormsstað eru svo reknar sambærilegar kyndistöðvar og mikil tækniframför hefur orðið í slíkum kyndistöðvum á mjög skömmum tíma.

Virðulegi forseti. Þetta eru verkefni sem svo sannarlega er tilefni til að veita athygli í ljósi markmiða hringrásarhagkerfisins og sjálfbærni og grænnar orkunotkunar. En við þurfum líka að halda áfram að leita að heitu vatni á köldum svæðum, nýta lífdísil, metanól, metan og sólarorku o.s.frv., eins og margir hafa komið inn á hér í umræðunni. Það er líka ýmislegt í pípunum varðandi rafeldsneyti og mér finnst nærtækast að nefna undirbúning að grænum orkugarði sem fyrirhugaður er á Reyðarfirði þar sem stefnan er að framleiða vetni og kanna auk þess samlegðaráhrif við aðra starfsemi á svæðinu, svo sem orkuskipti í sjávarútvegi og landflutningum, endurnýtingu varma til húshitunar og notkun súrefnis í fiskeldi á landi. Í skýrslunni er komið inn á hluti eins og snjalllausnir og nýsköpunarfyrirtæki sem hafa það beinlínis að markmiði að nýta orku betur eða nýta glatvarma frá iðnaði og margt annað spennandi sem er að gerast.

Að lokum vil ég segja: Það verða allir íbúar landsins að fá tækifæri til að vera þátttakendur í orkuskiptunum og það verður aðeins gert með því að nýta fjölbreyttar leiðir við orkuöflun með því að festa jafnan dreifikostnað raforku í sessi til allrar framtíðar. Mér finnst umræðan hafa verið mjög mikilvæg og ég vil þakka fyrir hana. Mér finnst niðurstaðan af henni vera að við þurfum að halda áfram að hvetja til samvinnu við úrlausnir áskoranna sem eru dregnar fram í skýrslunni og samvinnan getur leitt okkur til lausna við samþættingu loftslagsmarkmiða og markmiða í orkumálum.