152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[17:09]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Mig langar í þessari ræðu minni að tengja saman með hvaða hætti réttaráhrif alþjóðlegrar verndar eru römmuð inn samkvæmt reglugerð um útlendinga, nr. 540/2017, með tilliti til þess hvernig nálgunin er í frumvarpinu sem hér liggur fyrir í tengslum við þessa fyrirséðu samræmdu móttöku með samræmdum réttindum allra hópa. Með leyfi forseta, þá segir í 31. gr. reglugerðar um útlendinga, nr. 540/2017, um réttaráhrif alþjóðlegrar verndar:

„Öllum einstaklingum sem koma til landsins í boði íslenskra stjórnvalda skv. 43. gr. laga um útlendinga,“ — það sem við köllum í daglegu tali kvótaflóttamenn — „sem og þeim er hafa fengið dvalarleyfi á grundvelli 73. og 74. gr. sömu laga, skal standa til boða að fá fræðslu og ráðgjöf um réttindi og skyldur og helstu upplýsingar um íslenskt samfélag, þar á meðal upplýsingar um atvinnutækifæri, húsnæðismál, íslenskukennslu og menntun almennt. Þessum einstaklingum skal standa til boða aðstoð við að tengjast því sveitarfélagi sem þeir hyggjast setjast að í.“

Ástæðan fyrir að ég nefni þetta er að hérna sýnist mér þegar vera til skapalónið að þeim markmiðum sem texti frumvarpsins gengur út á að teikna upp en síðan er skautað fram hjá því í fyrirliggjandi frumvarpi að önnur réttindi fylgja þarna með, sem eru, eins og ég hef komið inn á áður, sérstaklega tilgreind í 15. gr. viðmiðunarreglna flóttamannanefndar um móttöku og aðstoð við hópa flóttafólks. Þar er býsna mikill munur á ef við horfum til þess með hvaða hætti þessir hlutir eru útlistaðir, annars vegar í reglugerð um útlendinga og hins vegar í öðrum gildandi rétti. Það sem ég hef enn sem komið er ekki skilið er með hvaða hætti kostnaðarmat þessa frumvarps er teiknað upp sem segir efnislega að frumvarpið hafi engin áhrif á kostnað á neinum stað í kerfinu nema af þeim þremur starfsmönnum sem ætlunin er að bæta við hjá Fjölmenningarsetri. Það auðvitað stenst enga skoðun. Markmiðin sem eru tilgreind í frumvarpstextanum sjálfum eins og segir í kaflanum um meginefni þess, eru, með leyfi forseta:

„… Fjölmenningarsetur veiti sveitarfélögum faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf í tengslum við móttöku einstaklinga með vernd. Þá er Fjölmenningarsetri falið að halda utan um boð móttökusveitarfélaga um búsetu og þjónustu byggð á þeim upplýsingum sem fyrir liggja og með tilliti til ákveðinna þátta, svo sem möguleika á námi, aðgangs að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, atvinnutækifæra og samgangna.“

Þetta eru allt sömu þættir og eru útlistaðar í þeirri grein sem ég las hér upp úr reglugerð um útlendinga, sem hefur verið í gildi síðan 2017, þannig að það er ekki eins og þessi farvegur sé ekki til staðar. Þessi ofuráhersla á að þetta frumvarp sé samþykkt með þeim hætti sem hér liggur fyrir fær mann til að gruna að það sé talið að þarna náist eitthvað fram í kaupbæti, til viðbótar við það sem er útlistað í texta frumvarpsins. Í ræðu hæstv. ráðherra, en ég verð að viðurkenna að ég þyrfti að fletta því upp hvort það var núverandi ráðherra málaflokksins eða sá sem mælti fyrir málinu á síðasta þingi, talaði hann á þeim nótum að það væri nú þegar tilraunaverkefni í gangi með þetta verklag á nokkrum stöðum og að ætlunin væri að leggja mat á með hvaða hætti þau tilraunaverkefni hefðu gengið eftir. Það væri auðvitað áhugavert að fá útlistun á því hvernig þessum tilraunaverkefnum hefur undið fram síðan þessi ræða var flutt. En þetta segir auðvitað að það er vandalaust að ná fram þeim markmiðum sem tilgreind eru í meginefni greinargerðarinnar með allt öðrum hætti heldur en þessari miklu útvíkkun á réttindum þeirra fjögurra hópa sem eru taldir upp í stafliðum a, b, c og e í 2. gr. frumvarpsins. D-liðurinn sem ég sleppti þarna í upptalningunni eru einstaklingar sem íslenska ríkið hefur boðið að setjast að hér á landi í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.

Virðulegur forseti. Ég er hér í miðjum klíðum með þetta efnisatriði og verð að biðja forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.