152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[17:41]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Hún er eiginlega ekki boðleg, sú staða sem við erum í við umræðu um þetta mál, að allir fulltrúar stjórnarflokkanna sem að þessu máli koma hafi stokkið í skjól. Ég áttaði mig á því að það væri ekki nema einn þingmaður stjórnarflokkanna allra sem hefði tekið þátt í umræðu um þetta mál, hv. þm. Jódís Skúladóttir, og hún tók mögulega þátt í umræðunni vegna þess að hv. þingmaður gat ekki annað, verandi framsögumaður nefndarálits meiri hluta nefndarinnar. Síðan hefur enginn sést í þessari 2. umr.

Í þessu ljósi fletti ég upp fyrri umræðu um þetta mál og þar tóku til máls þrír þingmenn stjórnarflokkanna. Það var Guðmundur Ingi Guðbrandsson, hæstv. ráðherra, sem mælti fyrir málinu. Það var hv. þm. Birgir Þórarinsson og hann kemur varla í umræðuna í dag, verandi með hinn góða varaþingmann, Ernu Bjarnadóttur, hér á þingi fyrir sína hönd. Síðan er það áðurnefndur hv. þm. Jódís Skúladóttir, sem er framsögumaður málsins. Þetta er nú allur herinn sem hefur komið hér til að reyna að útskýra hvað í þessu máli felst. Og þegar maður finnur að mörgu leyti betri útskýringu á áhrifum málsins í þingsályktunartillögu sem ekki er búið að mæla fyrir og var dreift á þinginu 1. apríl sl., heldur í texta frumvarpsins sjálfs, þá er þingmönnum nokkur vorkunn að þurfa að rekja sig í gegnum flækjustigið í málinu. Það er algerlega augljóst að það er verið að reyna að komast eins létt frá því að veita upplýsingar og nokkur kostur er. Það eru eflaust einhverjir þingmenn stjórnarflokkanna með kveikt á sjónvarpinu hjá sér á skrifstofum sínum, en mér þykir ekki rismikið hjá hv. þingmönnum að láta ekki sjá sig við þessa umræðu þegar orðið er alveg ljóst að kostnaðarmat frumvarpsins er tóm vitleysa. Kostnaðarmatið tekur bara á algjöru aukaatriði í heildarmyndinni, algjöru aukaatriði. Kannski þingmenn stjórnarflokkanna ætli sér að stinga höfðinu í sandinn og vona að vandamálið hverfi með þeirri nálgun, það læra börnin sem fyrir þeim er haft, það hefur svo sem verið tilhneiging hjá ýmsum forystumönnum ríkisstjórnarinnar undanfarið að láta ekki ná í sig þó að ástæðurnar geta auðvitað verið mismunandi. En það er algerlega óboðlegt að þingmenn meirihlutaflokkanna, ég vil sérstaklega segja þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem segjast alla jafna vera varðmenn skattpeninga og þess að fara vel með, komi ekki hingað og eigi orðastað við okkur sem stöndum í þessari umræðu og gagnrýnum það hvernig þetta mál er sett fram og reyni að færa einhver rök fyrir því að sá sem hér stendur sé að misskilja þetta. Ég held að það sé auðvitað þannig að væri það staðan, þá væri einhver mættur fyrir löngu síðan til að útskýra að þetta væri allt tóm vitleysa sem við erum að fara með hérna. En þegar maður les texta tillögunnar til þingsályktunar, sem liggur fyrir án þess að hafi verið mælt fyrir henni, þá bara blasir við hvert markmiðið er hérna. Það er alveg galið að við séum með eitthvað þar sem þyrfti að vera þríþætt kostnaðarmat: eitt sem gengur út á að verðleggja stólana og skrifborðin og þrjá starfsmenn sem á að ráða til Fjölmenningarseturs. Það er gert: 40,8 milljónir á ári plús smávægilegur einskiptiskostnaður í byrjun. En síðan er tveir stóru þættirnir sem einhverju máli skipta látnir liggja á milli hluta, annars vegar kostnaðurinn af því að færa þessa stóru hópa, sem í þingsályktunartillögunni segir að séu 87% umsækjenda undanfarin fimm ár, 87%, þetta eru næstum því allir, úr því regluverki sem núgildandi lög segja til um yfir í það að njóta réttinda á sama grundvelli og kvótaflóttamenn sem koma hingað í gegnum samstarf við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. — Velkomin í sal og velkomin á þing, hv. þingmaður. (Gripið fram í: Áhugaverð umræða.) Ég veit það. Gaman að þú sért komin til að taka þátt í henni. (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti. Nú er tími minn búinn og ég verð að biðja um að vera settur aftur á mælendaskrá.