152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[17:57]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég var við það að hefja yfirferð yfir stefnu danskra jafnaðarmanna í þessum málum sem stangast algerlega á við það sem ríkisstjórnin er að leggja til hér. Ég verð nú að viðurkenna að ég er bara býsna spenntur að komast í þessa yfirferð af því að þetta er jákvætt. Hér eru lausnir. Ég myndi engu að síður gjarnan vilja fá gagnrýni á þessa stefnu því það er gagnlegt að fá gagnrýni. Ef þingmenn annarra flokka en Miðflokksins eru í salnum, eða ef þeir heyra í okkur einhvers staðar hér í húsinu eða í nærliggjandi húsum, þá hvet ég þá til að mæta hér og benda mér á veiku punktana í stefnu dönsku kratanna því það er gagn að því. Þá fáum við umræðu og getum hugsanlega gert hlutina enn betur. En það sem ég ætla að byrja á að gera er að fara yfir meginstefnuna, nokkurs konar samantekt á stefnunni í heild. Það sem ég hef gert er að þýða þetta yfir á íslensku. Reyndar er þetta ekki alveg bein þýðing því ég hef mildað þetta aðeins, ef svo má segja. Þetta er ekki eins afdráttarlaus eða hörð stefna og kratarnir dönsku birtu, ég milda þetta og laga að íslenskum aðstæðum. Eða ekki laga að íslenskum aðstæðum, dreg bara örlítið úr í orðavali og skipti orðinu Danmörk út fyrir Ísland þannig að menn sjái kannski meiri samhljóm með stöðunni hér. Þetta svo að segja bein þýðing, bara örlítið mildari útgáfa. Þegar ég er búinn að fara yfir þennan inngang þá sný ég mér að nokkrum tilteknum atriðum stefnunnar og þar er um beina þýðingu að ræða. Þar er ég bara að fara nákvæmlega yfir þetta eins og það birtist hjá dönsku krötunum.

En fyrst þessi inngangsorð, með leyfi forseta:

„Við þurfum sjálf að ráða því hversu mörgum innflytjendum við tökum á móti. Það getum við ekki nú. Það þarf að setja hámark á fjölda hælisleitenda og koma um leið á sanngjarnara og mannúðlegra hælisleitendakerfi. Það ætti ekki að vera hægt að leita „skyndihælis“ á Íslandi. Við munum þó áfram taka á móti kvótaflóttamönnum.

Ísland er lítið land sem hefur tekist að byggja upp betra velferðarsamfélag en víðast hvar annars staðar.“

Nú minni ég virðulegan forseta á að þetta er danski textinn nema hvað ég hef sett Ísland inn í stað Danmerkur.

„Á Íslandi er lögð áhersla á jafnrétti en um leið að hver og einn leggi sitt af mörkum. Gagnkvæmt traust er forsenda þeirrar samheldni og öryggistilfinningar sem einkennt hefur landið.“ — Það var nú mikið rætt hér fyrr í dag, mikilvægi trausts í stjórnmálum.

„Þótt útlendingar séu velkomnir til Íslands skiptir sköpum að þeir verði hluti af samfélaginu. Það gerist ekki öðruvísi en að þeir hafi vilja til þess sjálfir. Þegar fólk flytur til landsins án þess að aðlagast samfélaginu dregur það úr samheldni.

Núverandi innflytjenda- og hælisstefna skapar ekki aðeins vandamál fyrir Ísland, hún ýtir líka undir ofbeldisfullt og lífshættulegt óréttlæti þar sem óprúttnir mansalar hagnast gríðarlega á ógæfu annarra.

Á undanförnum þremur árum hafa meira en 10.000 manns, þar með talið mörg börn, drukknað á Miðjarðarhafi við að reyna að komast til Evrópu. Mun fleiri verða fyrir ofbeldi og misnotkun á leiðinni. Konur eru neyddar í vændi, fjölskyldur í heimalandinu eru kúgaðar og fólk selt í þrælahald. Um leið hafa Vesturlönd vanrækt þá flóttamenn sem eru í mestri neyð. Nærumhverfinu hefur ekki verið sinnt sem skyldi.

Undanfarin fjögur ár hafa Evrópulönd varið umtalsvert meira fjármagni en áður í úrvinnslu hælisumsókna fyrir þá sem hafa komist til landa álfunnar þótt stór hluti þeirra reynist vera förufólk sem á ekki rétt á hæli í Evrópu.“

Frú forseti. Ég sé að ég næ ekki einu sinni að fara yfir innganginn í þessari ræðu en held þá áfram hér á eftir og bið yður um að skrá mig aftur á mælendaskrá.