152. löggjafarþing — 73. fundur,  29. apr. 2022.

frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins.

517. mál
[13:43]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 105/2014. Til einföldunar eru lögin í daglegu tali jafnan nefnd lögin um frjálsa för og mun ég nýta mér það í máli mínu hér í þessari framsögu. Um er að ræða breytingar á lögunum sem tengjast evrópsku vinnumiðluninni sem er hluti af EURES-netinu svokallaða, en meðal þess sem tekið hefur verið upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eru sameiginlegar reglur innan svæðisins um vinnumiðlunarnet innan Evrópu. Hafa þannig verið felldar undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið sameiginlegar reglur innan svæðisins um aðgang launafólks að þjónustu vinnumiðlunar vegna hreyfanleika og frekari samþættingu vinnumarkaða innan svæðisins. Reglurnar lúta jafnframt að sameiginlegum gagnagrunni með upplýsingum um laus störf og atvinnuleitendur innan svæðisins. Hefur þessum reglum um evrópsku vinnumiðlunina verið veitt lagagildi hér á landi með lögunum um frjálsa för og hefur sú Evrópureglugerð sem um ræðir, sem er frá árinu 2011, jafnframt verið birt sem fylgiskjal með lögunum.

Virðulegi forseti. Með Evrópureglugerð frá árinu 2016, sem felld hefur verið undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, er ætlunin að styðja frekar við evrópsku vinnumiðlunina og að tryggja samræmda afgreiðslu, stuðningsþjónustu og upplýsingaskipti í tengslum við hreyfanleika vinnuafls innan Evrópska efnahagssvæðisins. Í því skyni mælir fyrrnefnd Evrópureglugerð frá árinu 2016 fyrir um að umræddar reglur um evrópsku vinnumiðlunina verði felldar brott úr Evrópureglugerðinni frá árinu 2013 og verði þess í stað birtar í sérstakri reglugerð. Þar sem ákvæðum Evrópureglugerðar frá árinu 2011 hefur verið veitt lagagildi hér á landi með lögum númer frjálsa för er nauðsynlegt að gera breytingar á þeim lögum og er mælt fyrir umræddum breytingum í frumvarpinu.

Eins og nánar tilgreint þá mælir framangreind Evrópureglugerð frá árinu 2016 fyrir um að ákvæði 11.–20. gr. og 38. gr. verði felld brott úr eldri Evrópureglugerðinni frá 2011 sem birt er sem fylgiskjal með lögunum um frjálsa för og verði þess í stað tekin upp í nýrri reglugerð þar sem efni Evrópureglugerðarinnar frá 2016 verði innleitt í heild sinni.

Líkt og fram kemur í skýringum með frumvarpinu er gert ráð fyrir að efni Evrópureglugerðarinnar frá 2016 verði innleitt hér á landi með reglugerð sem sett verði á grundvelli 20. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006, eftir að frumvarp þetta er orðið að lögum.

Í ljósi framangreinds er í frumvarpinu lagt til að í 1. gr. laga um frjálsa för verði kveðið á um að ákvæði Evrópureglugerðarinnar frá 2011 skuli hafa lagagildi hér á landi með þeim breytingum sem leiða af Evrópureglugerðinni frá árinu 2016. Þá er í frumvarpinu lagt til að fylgiskjal með lögunum um frjálsa för, þar sem ákvæði Evrópureglugerðar frá árinu 2011 eru birt, verði fellt brott úr lögunum. Þar með er ekki verið að fella Evrópureglugerðina frá árinu 2011 úr gildi hér á landi heldur eingöngu verið að breyta framsetningunni í lögunum í samræmi við hefðbundna lagasetningu í tengslum við innleiðingu reglugerða sem leiðir af aðild Íslands að samningnum við Evrópska efnahagssvæðið. Er þannig gert ráð fyrir að í lögunum verði vísað til þess hvar reglugerðina er að finna í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins auk þess sem slóð reglugerðarinnar verður aðgengileg á vef lagasafnsins og þykir því ekki lengur nauðsynlegt að birta reglugerðina sem sérstakt fylgiskjal með lögunum. Þeim breytingum á lögunum um frjálsa för sem frumvarpið gerir ráð fyrir er því hvorki ætlað að hafa breytingar í för með sér hvað varðar gildi Evrópureglugerðarinnar frá 2011 né á gildi reglnanna um evrópsku vinnumiðlunina hér á landi.

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða frumvarp sem felur í sér lagatæknilegar breytingar en ég tek skýrt fram að verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir efnislegum breytingum hvað varðar starfsemi evrópsku vinnumiðlunarinnar hér á landi frá því sem nú er, heldur er eingöngu gert ráð fyrir breyttri framsetningu reglnanna í samræmi við reglur Evrópusambandsins sem felldar hafa verið undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Þar sem langt er um liðið síðan sú reglugerð Evrópusambandsins sem ég nefndi fyrr í máli mínu frá árinu 2016 kom fram og fyrirhugað er að innleiða hér á landi með reglugerð á grundvelli laga um vinnumarkaðsaðgerðir eftir að frumvarp þetta hefur orðið að lögum, hefur Eftirlitsstofnun EFTA lagt á það ríka áherslu að Ísland innleiði efni reglugerðarinnar sem fyrst hér á landi. Í því ljósi vil ég hvetja til þess að frumvarpið fái skjóta og góða afgreiðslu hér á Alþingi þannig að við getum strax í vor innleitt umrædda reglugerð frá Evrópusambandinu eins og okkur ber að gera.

Að lokum legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar að lokinni þessari umræðu.