152. löggjafarþing — 73. fundur,  29. apr. 2022.

breyting á ýmsum lögum í þágu barna.

530. mál
[14:00]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar fyrst að koma inn á það sem hv. þingmaður nefndi, breytingarnar sem urðu á Stjórnarráðinu þegar þessi ríkisstjórn tók við og færðir voru málaflokkar á milli ráðuneyta, þar með talið málefni barna úr félagsmálaráðuneytinu yfir í mennta- og barnamálaráðuneytið. Fyrir þá breytingu var að sjálfsögðu málefnum barna líka sinnt í mennta- og barnamálaráðuneytinu. Eftir breytinguna er ákveðnum þáttum sem snerta börn sinnt í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, m.a. allvíðtæk löggjöf sem ég nefndi hérna áðan. Það eru m.a. lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, lög um þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Ég hef í sjálfu sér ekki áhyggjur af því sem hv. þingmaður spyr mig um, enda er passað upp á að það sé samhæfing innan stýrihóps Stjórnarráðsins. Það höfum við í mörgum málum sem ganga þvert á ráðuneyti. Þar eru inni félagsmálaráðuneytið, menntamálaráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og forsætisráðuneytið sem er í þeim stýrihópi og honum er ætlað einmitt að passa upp á að það gerist ekki sem hv. þingmaður hefur áhyggjur af. Auðvitað get ég tekið undir það að maður hefur stundum áhyggjur af málaflokkum þegar þeir fara þvert yfir en það er eðli sumra málaflokka að gera það og það er ekki endilega verra, það þarf bara að passa vel upp á samhæfingu. Við gætum nefnt fjölmörg önnur dæmi um það. En alla vega á samhæfing að fara fram og hún fer fram hjá sérstökum stýrihópi innan Stjórnarráðsins.