152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

leiðrétting búsetuskerðinga.

[15:05]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ríkissjóður var dæmdur á öllum dómstigum til að borga verst setta fólkinu í landinu búsetuskerðingar á sérstakri uppbót. Hæstv. ráðherra staðfesti hér í óundirbúnum fyrirspurnum að ríkisstjórnin ætlaði bara að borga fjögur ár aftur í tímann. Ríkið hefur með lögbrotum rænt sérstöku uppbótinni af þessum hóp í 13 ár. Við ætlum bara að skila ykkur fjórum árum en ræna ykkur lögbundnum réttindum ykkar í níu ár. Ef þú brýtur lög og hefur með þeim lögbrotum lífsnauðsynlega framfærslu af verst setta fólkinu á Íslandi, fólki sem á ekki einu sinni fyrir mat og lifir það ekki af að fá lagalegan rétt sinn virtan — ég spyr ráðherra aftur: Á ekki að skila þessum ólöglega ránsfeng? Hefur ríkisstjórnin ekki breytt um skoðun og ákveðið að fara að lögum og borga að fullu þetta ólöglega fjárhagslega ofbeldi gagnvart verst setta fólkinu? Þá hafa þeir lífeyrisþegar sem hafa tekið út séreignarsparnaðinn sinn lent í skerðingum, keðjuverkandi skerðingum, þannig að viðkomandi hafa lent í mínus. Hugsa sér að lofa einhverjum að hann geti tekið út séreignarsparnað sinn án skerðingar en gera það svo flókið að stór hópur lendir í skerðingum, það miklum skerðingum að allt er tekið af þeim. Veikt fólk lendir í því að skrá vitlaust hjá Skattinum og því reiknast þeim tekjur og allt er skert að fullu. Það hefur einnig keðjuverkandi áhrif á margar stofnanir og þau fá ekkert leiðrétt eða borgað til baka. Er einhver hissa að kvíði, þunglyndi, streita, svefnleysi sé að hrjá þennan hóp í boði ríkisstjórnarinnar? Álagið gengur nærri heilsu þessa fólks. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Eru þetta óvinir þessarar ríkisstjórnar? Eru þetta breiðu bökin, verst setta fólkið á Íslandi? Ætlið þið virkilega að halda áfram að koma svona fram við þetta fólk?