152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

samþjöppun í sjávarútvegi.

[15:12]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Sjávarútvegur er nátengdur sögu og sál íslensku þjóðarinnar. Fiskveiðar og fiskvinnsla hafa í gegnum aldirnar verið okkar mikilvægustu atvinnugreinar og haldið landinu í byggð. Margt er mjög vel gert í sjávarútvegi nú á dögum en þrátt fyrir það ríkir um greinina rótgróið vantraust og ósætti. Það er ekki að ástæðulausu. Kvótakerfið og úthlutun kvóta er lokað kerfi. Nýliðun er þar nánast ómöguleg og kvótinn erfist, helst innan fjölskyldna eða safnast á fárra hendur.

Stórútgerðir mala gull. Ofsagróði þeirra hefur ruðningsáhrif. Fáir aðilar verða allt of valdamiklir í samfélaginu og teygja arma sína víða í viðskiptalífinu með fjárfestingum utan greinarinnar. Veiðigjöldin sem þessar útgerðir greiða fyrir afnot af þjóðarauðlindinni eru allt of lág. Það blasir við að þjóðin fær ekki réttlátan hlut í arðinum. Nú þegar almenningur þarf að bera kostnaðinn af hærri verðbólgu með hækkandi verði á matvörum, hærra húsnæðisverði, hærri leigu og hærri vöxtum á lánum er eðlilegt að fólk spyrji hvers vegna stjórnvöld sjái ekki til þess að stærri hluti arðsins af auðlindinni renni í ríkissjóð og þaðan til að greiða fyrir mótvægisaðgerðir til að jafna leikinn. Tíu stærstu útgerðirnar fara með meira en helming kvótans og 20 stærstu með meira en 70% kvótans. Ofan á þetta bætist svo eignarhald þessara útgerðarrisa í öðrum útgerðum. Lagagreinarnar um tengda aðila í lögum um stjórn fiskveiða eru svo óskýrar að Fiskistofu er ómögulegt að fara með skilvirkt eftirlit með skaðlegri samþjöppun í greininni. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sé ekki sammála því að um óheillaþróun sé að ræða. Mun hæstv. ráðherra leggja fram frumvarp um breytingar á lögum sem vinna gegn samþjöppun í greininni?