152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

stjórn veiða á grásleppu.

[15:34]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Undanfarin ár hefur verið ófremdarástand í stjórnun á veiði á grásleppu. Þar hafa verið stundaðar ólympískar veiðar þótt reynt hafi verið að stýra þeim með dagafjölda miðað við ráðgjöf Hafró. Árið 2020 var veiðin það mikil að þegar kom að þeim sem byrja seinna að veiða, þá aðallega fyrir Vesturlandi, var potturinn eða veiðiráðgjöfin uppurin og útgerðir á þeim svæðum fengu lítið að komast til veiða og sumir ekki neitt. Þessu varaði sá sem hér stendur við fyrir áramótin 2020. Þáverandi sjávarútvegsráðherra mælti fyrir frumvarpi til að auka fyrirsjáanleika í grásleppuveiðum árið eftir. Það frumvarp fékkst ekki rætt í atvinnuveganefnd af óskiljanlegum ástæðum og dagaði þar uppi. Í ár er ráðgjöf um 7.000 tonn en ráðuneytið hefur gefið út 25 daga til veiða þrátt fyrir beiðni frá vinnsluaðilum um fjölgun daga vegna batnandi horfa í sölumálum hrogna. Það stefnir í að einn þriðji af ráðgjöf Hafró veiðist þetta árið og að um 2.500 tonn verði eftir óveidd. Ég spyr því ráðherra: Af hverju var ekki hlustað á beiðni þeirra vinnsluhafa sem fóru fram á fleiri daga þegar ljóst var að söluhorfur fóru batnandi og vinnslurnar vantaði hráefni? Er von á einhverjum fyrirsjáanleika í veiðistjórn grásleppu? Má eiga von á að hæstv. ráðherra bregðist við þeirri stöðu varðandi vöntun á hráefni sem við blasir?