152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

heildarúttekt heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með vímuefnasjúkdóma.

304. mál
[16:05]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kem hér upp til að þakka fyrir þessa umræðu sem hér fer fram og taka undir með þeim sem hafa sagt að við þurfum stefnumótun, heildræna stefnumótun í þessum málaflokki og það þarf að vera algjörlega skýrt hvert stjórnvöld ætla að stefna í vímuefnavörnum og hvernig vímuefnameðferð á að vera á Íslandi. Af því tilefni vil ég nota þetta tækifæri og ítreka nauðsyn þess að tekið sé tillit til ólíkra þarfa ólíkra hópa. Konur og karlar hafa ekki sömu þarfir í meðferð, jaðarsettir hópar enn aðrar. Við vitum að það hefur verið bent á þetta árum saman. Í áratug hefur Rótin bent á þarfir kvenna vegna vímuefnavanda og þær eru oft allt aðrar en annarra. Við verðum að styðjast við nýjustu aðferðir, gagnreyndar upplýsingar og rannsóknir og við verðum líka að horfast í augu við það að fleira dugar en 12 spora kerfið.