152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

aðkoma Alþingis að sóttvarnaráðstöfunum í heimsfaraldri.

362. mál
[16:36]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir fyrirspurnina um aðkomu Alþingis að sóttvarnaráðstöfunum í heimsfaraldri. Þær hanga nú eitthvað saman þessar spurningar en eru í fimm þáttum og snúa m.a. að aðkomu Alþingis að ákvörðunum um sóttvarnaráðstafanir og þá augljóslega í tengslum við frumvarp til sóttvarnalaga sem hefur legið fyrir þinginu í einhvern tíma og ég hef reyndar ekki mælt fyrir enn þá. En það er rétt sem hv. þingmaður kom inn á hér, það hefur liðið einhver tími frá því að við vorum á hæsta punkti í ómíkron-bylgjunni og þá var þetta heitara umræðuefni. En við komumst auðvitað alls ekki hjá því að horfa til þessa lagafrumvarps og þessara álitamála sem hv. þingmaður leggur hér ágætlega fram í þessu spurningaformi.

Í fyrsta lagi er spurt hvort ég sé sammála mati starfshópsins sem skipaður var til að gera drög að nýjum heildarlögum um sóttvarnir um hverjir skuli taka ákvarðanir um sóttvarnir og á hvaða vettvangi, þetta álitamál hvort þær ákvarðanir eigi ekki að vera teknar á vettvangi stjórnmálanna, ákvarðanir sem ráðherra tekur með reglugerð, eins og hv. þingmaður tók fram. Það er rétt að starfshópurinn lagði það til í frumvarpi að notast við ákveðna stigskiptingu sjúkdóma. Ég held að það sé brýnt að við skoðum þetta í einhverju samhengi við það hvernig er verið að nálgast málið í þessu frumvarpi. Þar er þetta lagt upp þannig að sóttvarnalæknir skili ráðherra tillögum um alvarlega sjúkdóma en það er nýtt í þessu lagafrumvarpi að það er miklu nákvæmari skilgreining á því hvaða stigi sjúkdómurinn er og alvarleika hans, út frá hvaða veiruafbrigði o.s.frv., eins og við þekkjum úr þessum faraldri. Þar er lagt til nýtt fjölskipað stjórnvald, farsóttanefnd, þannig að það verður breiðari vettvangur á bak við tillögurnar en verið hefur, sem skili ráðherra tillögum um samfélagslega hættulega sjúkdóma. Það er mitt mat að þessi stigskipting og þessi breiðari vettvangur verði til þess að bæta framkvæmdina og stjórnsýsluna við að beita þessum lögum. Ég held að heilt yfir hafi það fyrirkomulag sem við höfum haft hér reynst vel í faraldrinum. Það hefur verið viss styrkur í því að taka ákvarðanir á forsendum fagaðila. Síðan hefur það reyndar, verð ég alveg að viðurkenna, borist inn í umræðu í þinginu í skýrsluformi, það hefur kannski ekki verið nægilega skilvirkt. Mér finnst það til bóta í þessu frumvarpi þar sem er lagt til að ráðherra kynni án tafar rökin þarna á bak við. Með þessari leið er auðvitað hægt að taka ákvarðanir hraðar. Svo er reyndar dregið fram hér í greinargerð að þetta rími við þá grundvallarreglu í íslenskri stjórnskipan að ráðherra, hver í sínu málinu, ber ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ég hygg nú að það breytist ekki þrátt fyrir það hvernig við förum með málið.

Um leið og ég horfi til þess að þetta hefur gengið vel og að ég er hlynntur því að þingið ræði málin og fá þau til umfjöllunar, þá hallast ég enn þá að því að við séum að stíga jákvæð skref með því sem lagt er til í þessu frumvarpi. En svo verður að horfa á hinn þáttinn, sem er IV. kafli í þessu frumvarpi, það er allt annað þegar við erum að fara í mjög harðar samfélagslegar takmarkanir og þar eru aðrir þættir sem ég er hlynntur því að þingið fái að ræða í tengslum við þær ákvarðanir sem verið er að taka hverju sinni. Þetta er ekki alveg svo slétt og fellt að það sé hægt að ná öllum kostum þess eins og lagt er til. (Forseti hringir.) Tíminn líður svo hratt en ég skal reyna að bregðast við hinum fjórum spurningunum hér á eftir.