152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

aðkoma Alþingis að sóttvarnaráðstöfunum í heimsfaraldri.

362. mál
[16:41]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég og við í Samfylkingunni höfum margsinnis talað fyrir því hér í þessum stól, bæði á meðan faraldurinn stóð sem hæst og eftir að hörðustu sóttvarnatakmörkunum var aflétt, að Alþingi eigi að hafa miklu veigameira hlutverk í allri umræðu og ákvörðunum um sóttvarnaráðstafanir og þá megi t.d. horfa til þeirrar leiðar sem farin er í nýju dönsku farsóttarlögunum, að færa þjóðþinginu eða þingkjörinni nefnd endanlegt ákvörðunarvald eða jafnvel nokkurs konar neitunarvald gagnvart mjög íþyngjandi ráðstöfun. Því miður er ekki gert ráð fyrir slíku í frumvarpi hæstv. heilbrigðisráðherra til breytinga á sóttvarnalögum, bara svona kynningu fyrir velferðarnefnd. Það er rökstutt á þann veg að það samræmist illa þrískiptingu ríkisvalds og þeirri grundvallarreglu íslenskrar stjórnskipunar að ráðherrar, hver á sínu málefnasviði, beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum, ekki hafi alltaf reynst vel að fela Alþingi aðkomu að ákvörðunum ráðherra. Mér finnst það pínu kaldhæðnislegt vegna þess að um leið eru stjórnarliðar að tala fyrir og boða lagabreytingar um stóraukna aðkomu Alþingis að umsýslu og sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum, einhverju sem er algjörlega framkvæmdalegs eðlis (Forseti hringir.) og eðlilegt að ráðherra og ráðuneytið hafi yfirumsjón með og beri ábyrgð á. Mér þætti fróðlegt að fá svör frá heilbrigðisráðherra (Forseti hringir.) um þessa mótsagnakenndu afstöðu ríkisstjórnarinnar hvað varðar aðkomu Alþingis að stjórnarframkvæmdum. (Forseti hringir.) Af hverju að stórauka þessa aðkomu þegar kemur að bankasölu en ekki þegar kemur að grundvallarákvörðunum um líf, (Forseti hringir.) heilsu og mannréttindi?

(Forseti (OH): Ég minni hv. þingmann á að virða ræðutímann.)