152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

biðlistar eftir valaðgerðum.

506. mál
[16:59]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda og ráðherra fyrir þessa umræðu. Það er auðvitað óásættanlegt hvernig biðtíminn hefur farið úr böndum hjá okkur. Ég veit að Covid-tíminn hafði áhrif á það, sem við verðum náttúrlega að horfa í gegnum, en þar á undan höfðum við lagt milljarða í biðlistana og það gerðist ekki neitt. Það er algjörlega ófært að þær stofur og sú þjónusta sem til er í landinu og getur unnið á biðlistunum með okkur sitji hjá þegar ástandið er svona. Ég treysti ráðherranum til þess að breyta því og að hér verði samið við þá aðila sem geta virkilega hjálpað okkur við að stytta biðlistana, af því að það er það sem þarf að gera. Maður þekkir þetta á eigin skinni og veit að menn og konur bíða árum saman eftir því að komast aftur á vinnumarkaðinn og margir komast aldrei út aftur af því að biðin er of löng. Biðin er of kostnaðarsöm fyrir okkur öll.