152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

biðlistar eftir valaðgerðum.

506. mál
[17:02]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Það vakti athygli mína að sjá hvaða nafni þessar aðgerðir eru nefndar af því að ég get ekki séð að þetta séu einhverjar valaðgerðir fyrir fólk sem þjáist af ónýtum lið eða er með ský á auga sem endar í gláku og blindu ef ekkert er að gert. Þetta eru auðvitað aðgerðir sem fólk þarfnast og þær verður að gera ef fólk á að halda heilsu. En ég tek undir það sem hér hefur verið sagt að það þarf að skoða önnur þjónustuform, það þarf að auka valmöguleika, búa til samkeppni. Ég er alveg handviss um það, og við sjáum það bara á heilsugæslunni í Reykjavík, þar sem verið er að reka opinbera þjónustu og einkaþjónustu, að slíkt þrífst ágætlega hlið við hlið. Ég hvet ráðherra til að beita sér fyrir því að þetta verði nýtt í auknum mæli.