152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

biðlistar eftir valaðgerðum.

506. mál
[17:03]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og þakka ráðherranum fyrir að gefa það nokkuð skýrt í ljós að hann sé með blönduðu kerfi í þessu sambandi þannig að fleiri geti komist í aðgerðir. Það hefur sýnt sig, í þeim löndum sem við berum okkur saman við, að blandað heilbrigðiskerfi, sem er bæði ríkisrekið og rekið á annan hátt, er farsælasta aðferð í heilbrigðismálum. Á síðasta kjörtímabili hlóðust upp biðlistar og fólk var jafnvel sent út í aðgerðir erlendis sem kostuðu þrisvar sinnum meira en hér heima og bara út af, leyfi ég mér að segja, pólitískum skoðunum þáverandi ráðherra í heilbrigðismálum. Vonandi tekst okkur að snúa þessu við. Ráðherrann bar við mönnunarvanda og það er kannski afleiðing af því hvernig staðan hefur verið undanfarin ár.