152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

biðlistar eftir valaðgerðum.

506. mál
[17:04]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Forseti. Mér fannst jákvætt og gott að heyra orð hæstv. heilbrigðisráðherra því að það verður að segjast eins og er að í þessu ríkisstjórnarsamstarfi allt síðasta kjörtímabil þá bjuggum við við þá stöðu að stefna ríkisstjórnarinnar var aldrei hluti af lausninni en því miður hluti af vandanum. Mér finnst ánægjulegt að heyra það hér í salnum í dag að þeir þingmenn sem eru að tjá sig um ágæta fyrirspurn hv. þm. Hildar Sverrisdóttur eru öll á sama máli um að vilja fara þær leiðir sem þarf að fara til að vinna bug á þessum vanda. Það jákvæða er að það er í sjálfu sér ekkert sérstaklega flókið. Við vitum hverjar lausnirnar eru; að nýta alla þá krafta sem við höfum nú þegar hér á landi og jafnvel annars staðar. Við töluðum um þetta í þessum þingsal, þingflokkur Viðreisnar, og töluðum fyrir daufum eyrum, allt síðasta kjörtímabil og ég óska þess innilega að ráðherra fylgi eftir þessum góðu orðum sínum og setji aukinn þunga í það að vinna út frá þessum hugmyndum og beita sér fyrir því að listar styttist. (Forseti hringir.) Það má ekki gleyma því að við erum að tala um mikið lífsgæðamál.