152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

biðlistar eftir valaðgerðum.

506. mál
[17:12]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Meginpunkturinn í þessari umfjöllun er auðvitað sá að rekstrarformið skiptir ekki máli heldur sá sem þarf á þjónustunni að halda, sjúklingurinn. Ég vil nefna í sambandi við augnsteinaaðgerðirnar að á síðasta ári var samið við einkaaðila um að framkvæma allt að 600 aðgerðir og nýverið bættum við 100 aðgerðum við. Það horfir því ágætlega þar þegar kemur að biðlistum. Varðandi liðskipti voru bundnar vonir við að skurðstofa á Akranesi yrði tilbúin í mars en það eru einhverjir mánuðir í að hún verði tilbúin, kannski tveir ef vel gengur. Svo er það bara staðreyndin, eins og ég kom inn á, að flækjustigið í þessu snýr að mannskap. Allar þessar einingar í kerfinu eru alltaf að keppa um sama mannauðinn, takmarkaða mannauðinn. Við höfum lagt mikla vinnu í að meta þörfina, meta getuna til að framkvæma aðgerðir og aðgerðartíðnina og ég bind vonir við að í kjölfar gæðaskýrslu, sem var nýverið skilað og er mjög góð, verði hægt að ná saman. Ég vil gera það í samvinnu við alla aðila sem framkvæma þessar aðgerðir, hvort heldur er innan einkageirans eða hins opinbera á sviði liðskipta, vinna þetta saman og nýta mannauðinn óháð því hvar fólk er í kerfinu, og það stendur til.