152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

aukin nýting lífræns úrgangs til áburðar.

492. mál
[17:23]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu um lífrænan áburð og þau svör sem ráðherrann kemur með. Þetta er náttúrlega eitthvað sem hefur verið gert í gegnum aldirnar, að nota lífrænan áburð, og nú kemur umræðan upp á ný vegna þess að tilbúinn áburður hefur hækkað upp úr öllu valdi. Þá vil ég líka minna á að fyrir nokkrum árum mælti þáverandi þingmaður Þorsteinn Sæmundsson fyrir frumvarpi um áburðarverksmiðju og þótti sumum það svolítið fyndið og sveitalegt en á það algerlega við í dag. Og eins, af því að ráðherrann nefndi að það væri stefna að hætta með urðun, þá lögðum við í Miðflokknum fram frumvarp á síðasta kjörtímabili um sorpbrennslu sem eru orðnar mjög vel gerðar úr garði þannig að þær menga ekki mikið. Það er eitthvað sem þyrfti að líta til framtíðar með.