152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

aukin nýting lífræns úrgangs til áburðar.

492. mál
[17:27]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Enn þakka ég fyrir bæði frumkvæðið og þá umræðu sem hér hefur verið. Mér segir svo hugur um að þetta umræðuefni verði vaxandi á næstu misserum og árum vegna þess hversu mikil tækifæri eru þarna ónýtt, t.d. að því er varðar hringrásarhagkerfið almennt sem leiðir þá einfaldlega til aukinnar sjálfbærni og þar með aukins fæðuöryggis. Við þurfum að horfast í augu við ákveðnar áskoranir í þessu efni sem kalla á auknar rannsóknir. Það er það sem þar sem vegvísirinn leggur í raun og veru áherslu á þegar hann verður kominn í kring, að rannsóknirnar þurfi verulega að efla og ekki síst að brúa þetta bil frá því að nota lífrænan áburð í landgræðslu og yfir í það að nýta hann í matvælaframleiðslu, því að þá erum við í raun og veru komin með nýjar og aðrar áskoranir.

En í þessu eru mikil tækifæri og víða er verið að vinna með sprota og hugmyndir í samfélaginu í þessum efnum. Það hefur komið mér ánægjulega á óvart að þetta snýst ekki bara um frumkvæði og verkefni sem eru í gangi hjá Landgræðslunni, Matís og fleiri slíkum, heldur eru aðilar, til að mynda í landbúnaði, í fiskeldi, í sjávarútvegi, farnir að tileinka sér orðfæri og hugsunarhátt hringrásarhagkerfisins í svo hröðum skrefum að mig hefði ekki órað fyrir því hversu mikilvægur þáttur það er orðið af bæði rekstrarmódeli þessara fyrirtækja, ímyndarsköpun þeirra og samfélagslegri ábyrgð. Þannig að ég held að það séu gríðarlega mörg tækifæri fram undan og ég hlakka til að takast á við þau með þessum aðilum og þinginu.