152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

greiðslur vegna umönnunar langveikra eða fatlaðra barna.

591. mál
[18:41]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Mig langar að byrja á því að bregðast aðeins við því sem sagt var um fjölda mánaða, þ.e. þeirra þriggja mánaða þar sem að hámarki geta komið til tekjutengdar greiðslur. Ef ég man þetta rétt þá er það í rauninni ekki breyting frá núgildandi lagaverki. Ég tel að það sé mikilvægt að sá möguleiki sé til staðar að foreldrar geti fengið greitt á sama tíma, sem er ekki í dag. Ég tel að það auki í rauninni möguleikana á því að báðir foreldrar, sem oft og tíðum eru karl og kona þótt það sé nú sem betur fer ekki algilt að kynjaskiptingin sé þannig, geti bæði nýtt þessar greiðslur.

Ég vil síðan benda á að umönnunarstyrkurinn, sem er það sem er ekki tekjutengt, er ekki skertur ef maður er í vinnu eða námi. Umönnunargreiðslurnar eru eingöngu greiddar til foreldra þar sem barn lendir í þrepi 4 eða 5, þannig að þetta er ekki fyrir allt saman og þá er augljóslega gert ráð fyrir að viðkomandi fari af vinnumarkaði á meðan.

Hv. þingmaður spyr hvort ég vilji hlusta betur á foreldra. Ég vil alltaf hlusta betur og meira á fólk sem vill ná fram auknum jöfnuði og réttlæti í samfélaginu og ég treysti því að þingnefndin muni gera það líka þegar málið verður komið til hennar.