152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[19:46]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er nú bara þannig að í þessu frumvarpi er verið að mæla fyrir breytingum á ákvæði sem varðar tiltekna þjónustu sem umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á. Hér er líka verið að mæla fyrir breytingum þegar kemur að atvinnuréttindum útlendinga. Allt eru þetta málefni sem er algerlega óumdeilt að heyra undir málefnasvið félags- og vinnumarkaðsráðherra. Það er hálfgerður orðhengilsháttur að láta eins og að um leið og umsókn hefur verið hafnað þá hljóti þjónusta við umsækjanda allt í einu að heyra undir eitthvert allt annað ráðuneyti. Þannig hafa lögin ekki verið túlkuð í framkvæmdinni. Þannig að mér finnst það hálfklént að nota það sem einhvers konar röksemd fyrir því að það sé óþarfi að félags- og vinnumarkaðsráðherra sé hérna á svæðinu með okkur. (Forseti hringir.) Það er ekki nema sjálfsögð kurteisi og myndi dýpka umræðuna um þetta mál að ráðherra, sem fer (Forseti hringir.) með tiltekin atriði er varða þessa þjónustu, væri hérna á svæðinu og tæki þátt í umræðunni.