152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[20:41]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Hér hlýddum við á ræðu hv. þingmanns sem er greinilega að reyna að finna ástæðu til þ að missa ekki svefn á kvöldin yfir því að hafa hleypt þessu frumvarpi í gegnum ríkisstjórn. Hv. þingmaður hefur látið selja sér hluti sem eru ekki réttir. Ákvæðið sem hv. þingmaður vísar í, sem er 3. mgr. 36. gr. — ég ætla að endurtaka það sem hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sagði hérna rétt áðan — því hefur aldrei verið beitt. Ákvæði 42. gr. um bann við endursendingu fólks þangað sem líf þess eða frelsi er í hættu hefur aldrei verið beitt. Þetta er ástæðan fyrir því að árið 2016, eftir vinnu sameiginlegrar þingmannanefndar, var ákveðið að setja inn í lögin ákvæði um það að ef sérstakar ástæður mæltu með því, það er nákvæmlega orðað þannig í lögunum, þá skyldu mál tekin til efnismeðferðar. Það var í kjölfar þess að hingað leitaði ung fjölskylda með tvö pínulítil börn sem hafði búið á ruslahaugum í Grikklandi. Þess vegna var þessi heimild sett inn. Ég er sammála hv. þingmanni að það væri færi vel á því að skýra þetta í lögum, (Forseti hringir.) vegna þess að eins og hv. þm. Þórhildur Sunna benti á þá hafa stjórnvöld verið að þrengja hana (Forseti hringir.) hægt og bítandi núna á síðustu árum. Það er hins vegar ekki verið að skýra þessa (Forseti hringir.) heimild heldur er verið að afnema hana.

(Forseti (OH): Ég vil biðja hv. þingmenn um að virða ræðutíma.)