152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[21:46]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og tek svo sem undir með honum: Nei, ég tel ekki að Ísland muni sökkva í sæ undan þeim litla fjölda fólks sem leitar hingað til lands. Það er ekki mikill fjöldi, hvorki hlutfallslega né í tölum. Það er svolítið áhugavert akkúrat að skoða það sem hv. þingmaður nefnir, sem er upprunalegur tilgangur Dyflinnarsamstarfsins; hann er að sögn sá að tryggja það að fólk fái áheyrn í einhverju landi en sé ekki að velkjast á milli landa án þess að nokkurt ríki taki ábyrgð. Þetta var sannarlega vandamál áður en Dyflinnarsamstarfið komst á en það er þó ekki jafn rík ástæða fyrir setningu Dyflinnarreglugerðarinnar og hin ástæðan sem var sú að koma í veg fyrir það sem kallað er á ensku, með leyfi forseta, „asylum shopping“, þ.e. að einstaklingar sóttu um vernd í einu ríki, fengu synjun og fóru þá í næsta ríki og reyndu þar. Einn megintilgangur Dyflinnarsamstarfsins er að koma í veg fyrir þetta. Vandamálið er að Dyflinnarsamstarfið kemur ekki í veg fyrir þetta. Ég hef verið með skjólstæðinga sem hafa fleiri blaðsíður af listum yfir lönd þar sem þeir hafa komið við og verið sendir fram og til baka á kostnað ríkisins í nafni Dyflinnarsamstarfsins. Annar megintilgangur Dyflinnarsamstarfsins er að sögn sá að tryggja samstöðu Evrópuríkja í að taka á móti flóttafólki. Það er heldur ekki rétt vegna þess að eins og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur bent á þá þýddi það að beita Dyflinnarreglugerðinni til fulls fremur það að við værum að beita 17. gr. oftar, sem segir: Ef einhverjar sérstakar ástæður eru til þá skuli ríki samt sem áður taka mál til efnismeðferðar þrátt fyrir að heimilt sé að vísa fólki eitthvert annað. Þannig hefur henni ekki verið beitt og þetta hefur meira að segja Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna gagnrýnt.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Telur hann að Dyflinnarsamstarfið nái annars þeim ágætu markmiðum sem stefnt var að með setningu reglugerðarinnar?