152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[22:51]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég les það meira að segja út úr umsögn Rauða krossins og út úr orðalagi á þess ákvæðis sem á að breyta að það eru ekki einu sinni sett skilyrði um að viðkomandi hafi fengið vernd í viðkomandi ríki til að hafna viðkomandi um efnismeðferð. Hann þarf bara að hafa einhvers konar tengsl við það ríki, að einhver ættingi búi þar eða sé með dvalarleyfi þar eða eitthvað slíkt. Það er nóg til þess að neita viðkomandi um efnismeðferð samkvæmt þessu frumvarpi.

Það sem mér finnst merkilegt við þetta ákvæði, ásamt nokkrum öðrum ákvæðum, er að verið er að taka hluti, sem Útlendingastofnun hefur verið að reyna að framkvæma eða hefur verið að framkvæma, og festa í lög. Í raun er verið að gulltryggja að þau geti haldið áfram að gera eitthvað sem þau hafa ekki haft heimild til að gera enn þá en það virðist ekki hafa skipt máli. Dæmi um það er að vísa 20 flóttamönnum á götuna í febrúar í fyrra án þess að hafa til þess lagaheimild. Núna á náttúrlega bara að tryggja að yfirvöld hafi lagaheimild til að vísa fólki á götuna. Svo er það að þau reyndu (Forseti hringir.) og eru að reyna að senda fólk til ríkja sem eru ekki hluti af Schengen-samstarfinu. Nú á bara að gulltryggja að hægt sé að gera það. Þetta er líka mjög algengt í þessum málaflokki.