152. löggjafarþing — 75. fundur,  17. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[00:14]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég ætla að taka upp þráðinn þar sem hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir skildi við hann. Einnig hér á Íslandi þurfum við fólk. Það liggja beinlínis fyrir greiningar þess efnis að ef við viljum viðhalda lífsgæðum okkar þurfum við um 15.000 manns til að flytja hingað, til að hjálpa okkur að byggja samfélag okkar áfram upp. Þetta fólk er einhvern veginn aðskilið frá fólkinu sem vantar samastað og kallast umsækjendur um alþjóðlega vernd. Það er annars konar fólk sem má jafnvel senda beislað úr landi. Eftir það er stjórnvöldum gjörsamlega sama um afdrif þess. Það hefur aldrei neitt verið gert til að kanna afdrif fólksins sem við höfum sent úr landi. Þetta hefur komið fram í fréttaflutningi, sérstaklega í fréttaflutningi Stundarinnar, sem hefur gert ítarlega úttekt á þessu. Nú á að bæta um betur. Það á ekki bara að senda fólk á ruslahaugana í Grikklandi. Það á líka að senda það víðs vegar um heiminn, bara hvert sem við getum komið því fyrir. Það skiptir ekki máli hversu auðvelt það verður að koma því þangað en við hljótum a.m.k. að geta reynt það.

Ertu að koma frá Venesúela? Áttu ekki einhverja frænku einhvers staðar í Suður-Ameríku sem þú getur verið hjá frekar en að koma hingað í leit að vernd? Það skiptir engu hvort þar séu grundvallarréttindi flóttamanna tryggð með aðild að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks á flótta. Þetta er gríðarleg afturför í réttindum fólks á flótta. En mig langar að árétta að þetta er ekki bara afturför í réttindum fólks á flótta heldur líka afturför í réttindum fólks af erlendum uppruna á Íslandi. Það er verið að skapa heimild fyrir yfirvöld til að nálgast heilbrigðisupplýsingar útlendinga án dómsúrskurðar og án samþykkis eða vitundar þeirra. Það er það sem verið er að gera með þessu frumvarpi. Fyrir utan auðvitað það sem svíður mest, sem er að það á algerlega að hætta að taka tillit til einstaklingsbundinna aðstæðna fólks sem fengið hefur vernd í öðru landi en á Íslandi, eins og t.d. í Grikklandi. Það kom mjög skýrt fram í þessum umræðum hver aðstaða fólks sem fengið hefur vernd í Grikklandi er. Hún er verri en aðstæður fólks sem ekki hefur fengið vernd í Grikklandi. En við sendum ekki fólk sem hefur ekki fengið vernd í Grikklandi til Grikklands út af því að það eru svo hræðilegar aðstæður þar. En fólk sem hefur vernd, sem hefur það verra, sendum við til baka. Þetta gerir Þýskaland t.d. ekki. Víða í Þýskalandi er þetta ekki gert. Það eru mörg önnur lönd í Evrópu sem senda fólk einmitt ekki til Grikklands vegna þess að þau vilja ekki gerast sek um að brjóta á 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Nákvæmlega á þeim grundvelli senda þau ekki flóttafólk sem fengið hefur vernd í Grikklandi til Grikklands.

En okkur er sama. Við athugum ekki einu sinni aðstæður fólks eftir að við sendum það á ruslahaugana Grikklandi. Nú ætlum við bara að senda það eitthvert þótt við séum ekki einu sinni með neins konar viðtökusamninga. Við ætlum bara að redda því einhvern veginn. Þetta reddast bara og ef það reddast ekki þá getum við a.m.k. hent þessu flóttafólki á götuna. Þetta er myndin sem er verið að teikna hér upp á tímum þegar fjöldi flóttamanna hefur aldrei verið meiri, þörfin á að ríki sem eiga nóg, ríki sem í raun þurfa á öllu þessu fólki að halda til að viðhalda þeim lífsgæðum sem við erum svo stolt af og okkur þykir svo vænt um og okkur þykja svo frábær — við ætlum ekki að taka þátt í að axla ábyrgð gagnvart þessum fjölda fólks sem við þurfum á að halda vegna þess að það passar ekki inn í réttan kassa. Það er ekki rétta fólkið. Það er ekki frá rétta landinu. Það er ekki með rétta litinn. Þetta er það sem blasir við okkur á Íslandi sem vantar fólk, sem hefur nóg til að taka vel á móti fólki en ætlar þess í stað að níðast á fólki.