152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Helga Þórðardóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Það eru ekki til lög á Íslandi sem skapa leigjendum jafnræði við leigusala. Í nágrannalöndunum eru til slík lög. Þar fara fram samningaviðræður um hækkun á leigu einu sinni á ári milli leigusala og stéttarfélags leigjenda. Þar verða leigusalar að rökstyðja hækkun með tilvísun í raunkostnaðarhækkanir. Aðilar þurfi að komast að samkomulagi. Til eru dæmi frá Svíþjóð þar sem munaði 12 sænskum krónum á mánuði sem olli því að æðra dómstig varð að skera úr um milli aðila, en 12 sænskar krónur eru 160 íslenskar krónur. Að hafa þak yfir höfuðið eru mannréttindi. Leigjendur eiga það ekki skilið að vera auðlind þeirra sem eiga a.m.k. tvennt af öllu. Stjórnvöld hafa svikið leigjendur, þeir eru jaðarsettir og eru algerlega berskjaldaðir fyrir hentistefnu leigusala sem ákveða leigu einhliða. Það er rangt að sjá húsnæði eingöngu sem tækifæri til að græða peninga því að mannréttindi fólks sem þurfa á slíku húsnæði að halda hljóta að vega meira, þ.e. ef við erum manneskjur. Löggjafinn verður að semja lög sem skapa jafnræði milli leigjenda og leigusala. Það verður að koma böndum á óhefta hækkun á leigu sem býr til enn meiri fátækt. Á meðan þau lög eru ekki tilbúin verða að koma til beinar aðgerðir stjórnvalda sem stöðva brjálsemi óhefts markaðar sem stjórnast í dag af græðgi einstaklinga, sem veldur mörgum fjölskyldum og börnum þeirra mikilli óhamingju. Því verður strax að linna.