152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Nýlega barst svar frá dómsmálaráðuneytinu við fyrirspurn minni um lögræðis-, sjálfræðis-, og fjárræðissvipta einstaklinga. Slíkum sviptingum er oft beitt til að hægt sé að nota nauðungarúrræði í lyfjagjöf og nauðungarvistun inni á geðdeildum landsins. Í svari ráðherra kemur í ljós að í dag eru lögræðissviptir einstaklingar tæplega 200 talsins og svipting lögræðis vari að meðaltali í fjögur ár. Sjálfræðissviptir einstaklingar eru hins vegar tæplega 400 talsins og eru sviptir sjálfræði að meðaltali í rúmlega eitt ár. Mikið hefur verið rætt um nauðungarvistanir og aðbúnað þeirra sem eru nauðungarvistaðir hér á landi. Það er vitað að mikill skortur er á fjármagni, þjónustu og aðbúnaði við hæfi til að hjálpa einstaklingum aftur út í lífið.

Mig langar aðeins að biðja þingheim að setja sig í spor þeirra sem eru nauðungarvistaðir, mögulega einungis vegna þess að þau eru með alvarlegan geðsjúkdóm. Ímyndum okkur, kæru þingmenn, að við værum á þessum einstaklega viðkvæma stað í lífinu, þar sem við þyrftum fyrst og fremst skilning, auðmýkt, ást og umhyggju, og ímyndum okkur svo að ofan á allt þetta séum við svipt sjálfræði, mögulega með valdbeitingu, og við missum sjálfsákvörðunarrétt okkar. Hvernig spor myndi það skilja eftir sig hjá okkur? Ég veit ekki hvort nokkur þingmaður hefur þurft að upplifa nauðungarvistun en ég vona innilega að enginn muni nokkurn tímann þurfa þess. Að vera beittur nauðung á þennan máta er nánast alltaf áfall sem hefur langvarandi og alvarlegar afleiðingar fyrir einstaklinginn. Svik, hjálparleysi, vonleysi, hræðsla, kvíði, einangrun og rof á tengslum við aðstandendur er einungis brot af því sem þeir sem eru beittir nauðung upplifa. Það þarf að innleiða nýjar leiðir til að hjálpa fólki með mannúð og skilning að leiðarljósi, leiðir sem eru ekki valdbeiting og nauðung.