152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Mig langaði að koma hér að vori til þegar ferðaþjónustan og lífið er að kvikna um allt land, og eftir að hafa ferðast hringinn í kringum landið í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga, og vekja athygli á og minna á hvað er í vændum. Nú er umferðin og umfangið í hverju héraði að fara að aukast þegar við Íslendingar förum að ferðast um landið og við förum að fá gesti til landsins. Þessi auknu umsvif munu að sjálfsögðu, eins og við þekkjum, auka álagið á alla okkar innviði. Þá er ég að tala um samgönguinnviðina. Það skapast aukin hætta. Við þurfum að huga að því hvernig við tryggjum öryggi þeirra innviða. Þar sem er meiri starfsemi þar er líka meiri hætta á slysum og fleiri uppákomum. Þá þarf öryggisviðbragðið að vera til staðar. Það þarf að styrkja þá grunninnviði líka, og þá erum við að tala um lögreglu, björgunarsveitir og sjúkraflutninga. Við höfum verið að ræða mikið hér í þessum sal og úti í samfélaginu um t.d. mikilvægi sjúkraþyrlu. Á þessum fjölförnustu ferðamannastöðum, í þessum litlu samfélögum sem eru að fara að margfalda íbúafjöldann sinn, þarf að vera öflug heilbrigðisþjónusta, löggæsla og við þurfum að styrkja innviðina til að koma í veg fyrir slysin og hjálpa þessum grunninnviðum að takast á við þessi auknu verkefni. Það þýðir ekki að þau kerfi séu bara byggð upp á íbúatölum. Það bara gengur ekki. Í Skaftafelli í Öræfum búa t.d. 70 manns en þar eru 2.500 virkir GSM-símar á hverjum degi.