152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Í morgun hélt hv. allsherjar- og menntamálanefnd opinn fund um fræðslu og menntun lögreglumanna varðandi fjölmenningu og fordóma. Ég verð að segja að mér fannst fundurinn einkar vel heppnaður en til fundarins mættu Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri, Ólafur Örn Bragason, forstöðumaður mennta- og starfsþróunarseturs lögreglunnar, og Helgi Valberg Jensson, aðallögfræðingur ríkislögreglustjóra. Boðað var til fundarins að beiðni Pírata í kjölfar atviks sem var hér mjög í fjölmiðlum. Mér fannst ríkislögreglustjóri fara mjög vel yfir það atvik og sýna að viðbrögð lögreglunnar voru í samræmi við þær tilkynningar sem þau fengu. En mér fannst eiginlega meira mikilvægt að á þessum fundi kom fram hvað lögreglan er að gera mikið í því að mennta lögregluna og breyta menningu í samfélaginu og hjá lögreglunni. Það var mikilvægt að heyra ríkislögreglustjóra tala um mikilvægi þess að um væri að ræða þjónustustofnun sem ætti að hlusta á samfélagið. Ég held að við getum öll tekið undir það. Það að embættið hafi boðið upp á nám um fjölmenningu og oft fordóma fyrir öll lögregluembættin held ég að sé mikilvægt því að markmiðið á að vera að allir lögreglumenn geti borið kennsl á hatursglæpi.

Það komu fram góðar hugmyndir á þessum fundi og ein var sú að ríkislögreglustjóri kallaði í rauninni eftir pólitískri forystu um að berjast gegn hversdagslegum fordómum í samfélaginu. Ég held að við hér inni getum vel tekið það til okkar. Jafnframt fór ríkislögreglustjóri yfir mikilvægi þess að lögregluembættin hefðu innra eftirlit og ítrekaði að þau ættu ekki að hafa eftirlit með sjálfum sér og þess vegna væri mikilvægt að eftirlitsnefnd með störfum lögreglunnar væri efld enn frekar. Fundurinn var jákvæður og góður (Forseti hringir.) og mikilvægur fyrir okkur sem í nefndinni sitjum og ég mun leggja til að við munum eiga reglulega fundi með þessum hætti.