152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Þann 5. maí síðastliðinn sendi miðstjórn ASÍ frá sér harða gagnrýni á aðgerðaleysi stjórnvalda og kallaði eftir tafarlausum aðgerðum til að bregðast hratt við vaxandi verðbólgu og óásættanlegri stöðu á húsnæðismarkaði. ASÍ minnti á kjaraviðræður nú í haust og benti á að sú kjararýrnun sem almenningur verður fyrir þessa dagana vegna verðbólgu og hækkandi vöru- og húsnæðisverðs muni hafa veruleg áhrif á þær. Daginn eftir kynnti ríkisstjórnin mótvægisaðgerðir sínar sem sannarlega eru í litlum takti við ákall ASÍ. Miðstjórn ASÍ kallar m.a. eftir því að stjórnvöld axli ábyrgð og taki frumkvæði í að byggja upp sátt og stuðla að félagslegum og efnahagslegum stöðugleika. Einnig að skattkerfinu verði beitt til raunverulegrar jöfnunar í samfélaginu og að hvalrekaskattur verði lagður á þær greinar sem hagnast á óvenjulegum aðstæðum og njóta óeðlilegs arðs. Það er ósætti í samfélaginu um þann ójöfnuð sem blasir við vegna aðgerða og aðgerðaleysis stjórnvalda. Ég tek undir með hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra þegar hún bendir á að innheimta eigi hvalrekaskatt á þá sem skiluðu ofsagróða í heimsfaraldri en skoðun hennar fær ekki hljómgrunn í ríkisstjórninni. Viðskiptaráðherra landsins er þarna eins og hver annar álitsgjafi með Facebook-færslu. Hæstv. viðskiptaráðherra nefndi banka og sjávarútvegsfyrirtæki en bæta mætti við tryggingafélögum sem högnuðust gífurlega í heimsfaraldri. Sjávarútvegurinn hagnast á lágu veiðigjaldi og veikingu íslensku krónunnar á meðan almenningur ber af krónunni mikinn kostnað. Það þarf að jafna leikinn og klukkan tifar, forseti, og við jafnaðarmenn (Forseti hringir.) tökum undir ákall Alþýðusambandsins.