152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég hef nú í þriðja sinn lagt fram þingsályktunartillögu um að Alþingi feli heilbrigðisráðherra að leggja fram áætlun um að öllum sem glíma við fíkn hvers konar eða vímuefnavanda standi til boða viðeigandi meðferð. Markmið tillögunnar er að stytta biðlista og auka aðgengi og þjónustu við einstaklinga í fíknivanda. Virkur áfengis- og vímuefnasjúklingur sem kallar eftir hjálp þarf að fá hjálp strax því að sjúkdómurinn er það öflugur í flestum tilfellum að sá gluggi þar sem sjúklingur er fús til að þiggja hjálp er oftast lítill. Þessi gluggi er enn minni hjá endurkomusjúklingum sem þó mega oft sitja aftast á títtnefndum biðlistum, sem í dag telja um 700 manns. Sjúkdómurinn leggst nefnilega misjafnlega þungt á einstaklinga. Sumir þurfa tvær, þrjár, jafnvel fjórar meðferðir til að ná bata. Því er það sorglegt að viðkomandi sjúklingar, sem eru það mikið veikir, fá ekki greiðan aðgang að meðferðum þegar þeir þurfa að koma í annað, þriðja eða fjórða sinn. Einstaklingar deyja á biðlistum, hæstv. forseti. Það er staðreynd. Ég þekki fólk sem hefur náð góðum bata eftir tvær, þrjár, fjórar meðferðir. Ég þekki líka til fólks í neyslu sem hefur dáið hefur á biðlistum. Það er ósanngjarnt, svo vægt sé til orða tekið.

Umræðan um þessi mál þarf að vera opin og málefnaleg, lykillinn að framförum, að skýrum markmiðum. Opin umræða er meginverkefnið til að berjast fyrir aukinni meðferð, réttindum og lífsgæðum áfengis- og vímuefnasjúklinga og aðstandenda þeirra. Það hefur forvarnagildi fyrir börn og aðstandendur sjúklinga sem leita sér hjálpar. Þess vegna þarf að auka aðgengi að meðferðum fyrir fólk í fíkniefnavanda.