152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Herra forseti. Í dag, 17. maí, er alþjóðadagur gegn hómó-, tví og transfóbíu. Í orðabók eru þessi hugtök skilgreind sem öfgakennd og órökrétt óbeit eða andstyggð á sam- eða tvíkynhneigðum eða trans fólki. Að mörgu leyti er staða hinsegin fólks góð á Íslandi og fer batnandi ár frá ári undir stjórn ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Það er mikið gleðiefni að Ísland hefur færst upp um fimm sæti á milli ára á regnbogakorti ILGA-Europe og áfram höldum við með aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2022–2025 sem forsætisráðherra lagði fram á þessu þingi og tekur á mikilvægum réttarbótum fyrir hinsegin fólk. En staðan er ekki alls staðar jafn góð og langar mig að nota þann tíma sem ég hef hér til að varpa sérstaklega ljósi á alvarlega stöðu trans fólks í heiminum. Árið 2021 voru 375 trans manneskjur myrtar í heiminum og sú tala hækkar frá fyrra ári. Samkvæmt alþjóðlegri skýrslu sem gefin er út ár hvert, með leyfi forseta, „Trans murder monitoring report“, er árið 2021 mannskæðasta og ofbeldisfyllsta ár gagnvart trans fólki frá því að mælingar hófust. En áttum okkur líka á samhengi hlutanna. 96% af þeim myrtu voru trans konur, af því að ofbeldi er líka kynjað, 58% þeirra myrtu voru þolendur vændis, fjórir af hverjum tíu voru innflytjendur. Morðin eru framin um allan heim. Ný tilfelli frá Grikklandi, Kasakstan og Malaví voru tilkynnt árið 2021, en Suður-Ameríka sker sig sérstaklega úr hvað varðar fjölda og eru 33% allra morða á trans fólki framin í Brasilíu.

Ég vil nota þetta tækifæri til að vekja athygli ykkar á þessari stöðu og að við getum aldrei aðskilið þau nánu tengsl sem eru á milli hatursglæpa, vændis, (Forseti hringir.) kvenhaturs, rasisma, útlendingahaturs o.s.frv. (Forseti hringir.) Hinsegin fólk sem fellur undir hatt fleiri minnihlutahópa er útsettara (Forseti hringir.) fyrir ofbeldi en annað hinsegin fólk og því getum við aldrei gefið afslátt í neinum af þessum málaflokkum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)