152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

útlendingar.

598. mál
[14:11]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir kynninguna á þessu litla frumvarpi. Mig langar að spyrja aðeins út í það sem var verið að ræða hér í gær varðandi skilgreininguna á umsækjendum um alþjóðlega vernd og svo hvenær viðkomandi hættir að flokkast sem umsækjandi um alþjóðlega vernd, þ.e. samkvæmt frumvarpi sem við fjölluðum um í gær, þegar búið er að taka endanlega ákvörðun. Hver fer með þjónustu við útlending sem ekki er lengur skilgreindur samkvæmt stjórnvöldum sem umsækjandi um alþjóðlega vernd? Hvort er það hæstv. dómsmálaráðherra eða hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra? Við ræddum aðeins í gær um að málefni útlendinga í neyð og þjónusta við útlendinga í neyð, sem eru dottnir úr allri þjónustu sem heyrir undir dómsmálaráðuneytið og mun heyra undir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, fari inn til sveitarfélaga. Ég vil spyrja aðeins út í þetta atriði. Hvað verður um þennan hóp eftir að hann er hættur að vera skilgreindur sem umsækjandi um alþjóðlega vernd? Eru það sveitarfélögin sem standa straum af því eða hver er það sem raunverulega ber ábyrgð þarna?