152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

útlendingar.

598. mál
[14:20]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er mikilvægt að farið sé mjög varlega með þær upplýsingar sem þær stofnanir sem ég nefndi hér áðan hafa aðgang að en eru nauðsynlegur aðgangur til að geta unnið úr þeim málum sem þeim berast, m.a. útlendingamálum. Það er auðvitað stjórnvaldsins sem gerir síðan samninga, mögulega við aðila um þjónustu, að sinna þessu hlutverki með tilhlýðilegum hætti. Þannig var það til að mynda að félagasamtök voru með þennan samning við dómsmálaráðuneytið, bæði það sem sneri að félagslega þættinum og fylgdarmannaþættinum, en þar er um að ræða löglærðan fulltrúa sem fylgir umsækjendum í gegnum allt ferlið á báðum stjórnsýslustigum. Við þetta hefur Persónuvernd ekki gert neinar athugasemdir og ég held að þetta fyrirkomulag geti í raun blessast með alveg sama hætti hjá félagsmálaráðuneytinu og hjá dómsmálaráðuneytinu. Ég treysti þeim fullkomlega til að meðhöndla það í samræmi við lög um persónuvernd.