152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

útlendingar.

598. mál
[14:30]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Ég byrja kannski bara þar sem hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson endaði, á því undarlega orðfæri ráðherrans í andsvörum að það sé mjög mikilvægt að hafa einhver skýr rannsóknarákvæði og skýr ákvæði um skyldu þeirra sem veita flóttafólki þjónustu vegna þess að hann og aðrir dómsmálaráðherra í Evrópu hafi svo miklar áhyggjur af því að það sé fólk að misnota kerfið. Við þekkjum þennan söng náttúrlega. Hann er sunginn úti um alla Evrópu og þetta er ekki fallegur söngur. Þetta er það sem við heyrum frá ráðherrum sem vilja þrengja rétt flóttafólks og hafa unnið að því hörðum höndum, alla vega síðustu sjö árin frá því að stríð braust út í Sýrlandi með tilheyrandi flóttamannastraumi, að herða og þrengja og gera allt sem hægt er að gera til að evrópska verndarkerfið sé eins lokað og óaðlaðandi og hægt er. Ég býst svo sem ekki við öðru af dómsmálaráðherra en það kom mér á óvart að þessi tónn kæmi allt í einu fram í frumvarpi sem á yfirborðinu snýst ekki um neitt annað en tilfærslu verkefna vegna breytinga á forsetaúrskurði. En svona er mönnum varla sjálfrátt stundum þegar þeir tala um það sem þeir bera sterkar tilfinningar til.

Það sem mig langaði að tala um, herra forseti, í frekar stuttu máli er vinnsla persónuupplýsinga eins og hún birtist í þessu frumvarpi. Það er nefnilega jafn bagalegt, held ég að sé svona mildasta orðið sem ég get fundið, að dómsmálaráðherra, sem er líka ráðherra persónuverndar í landinu, hafi ekki talið ástæðu til þess að leita til stofnunarinnar Persónuverndar með það hvort þessi breyting væri nógu góð. Það er ekki framkvæmt neitt mat á áhrifum á persónuvernd í þessu frumvarpi. Ráðherra segir að það sé vegna þess að það feli ekki í sér efnislegar breytingar á réttindum og skyldum umsækjenda um vernd heldur eingöngu breytingar á því hvaða stjórnvald fer með þau mál.

Við þetta hef ég tvennt að athuga. Annars vegar getur nýja stjórnvaldið verið í allt annarri aðstöðu til að taka á persónuverndarmálum. Ég vona að dómsmálaráðuneytið sem ráðuneyti persónuverndarmála hafi yfir að búa persónuverndarfulltrúa og öllum þeim gæðakerfum sem nauðsynleg eru til að geta tryggt örugga vinnslu persónuupplýsinga. Ég veit ekki með félagsmálaráðuneytið, það kemur hvergi fram. Það er eitt af því sem þyrfti að skoða. Hitt er svo að útlendingalögin eru eldri en persónuverndarlögin. Þessu ákvæði 17. gr., um vinnslu persónuupplýsinga, hefur verið breytt að einhverju leyti en það hefur mér vitanlega ekki verið lagst mjög ítarlega yfir ákvæðið til að tryggja að það standist upp á punkt og prik nýju persónuverndarreglugerðina, persónuverndarlögin. Þess vegna hefði verið svo gráupplagt að nýta tækifærið nú þegar verið er að færa ábyrgðin á þessu ákvæði yfir til annars ráðuneytis, að leggjast í þá vinnu sem ekki var gert þegar stóra frumvarpið um heildarlög um persónuvernd var hér á þingi. Það er svo sem skiljanlegt því að heildarlög ná ekki að sópa upp öllum molum á gólfinu. Þess vegna þarf að nýta allar svona ferðir, öll tilefni þar sem eru einhverjir snertifletir við persónuvernd, til þess að gaumgæfa það, vera viss um að þetta sé allt í lagi, vegna þess að þó að þetta feli ekki í sér efnislegar breytingar þá getur verið að gamla ákvæðið hafi bara ekki verið nógu gott. Það er frekar óvarlegt að gera ráð fyrir því að gildandi ákvæði sé 100%. Þetta þykir mér ekki bara undarlegt frá þeim ráðherra sem fer með málefni persónuverndar heldur er þetta aukinheldur sá ráðherra sem samkvæmt nýja forsetaúrskurðinum ber ábyrgð á gæðum lagasetningar. Hann leggur hér fram frumvarp þar sem ekki hefur verið framkvæmt mat á áhrifum á persónuvernd, enda snertir þetta nú bara umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem stjórnvöldum þykir ekkert alltaf þurfa að standa dyggan vörð um. Þar að auki er svolítið kastað til höndunum, svona út frá gæðatékki.

Ég vil því beina því til þeirra sem sitja í allsherjar- og menntamálanefnd, þar sem ég á því miður ekki sæti lengur, að skoða þetta vel og vandlega, fá Persónuvernd á fund nefndarinnar til að fara yfir þessi mál til að það sé á hreinu að stjórnvöldin sem skilgreind eru í greinum frumvarpsins séu t.d. ekki of vítt skilgreind. Að stjórnvöldin sem fá þessar heimildir, sem er þá félagsmálaráðuneytið, séu í færum til að taka við þeim. Og framkvæma það mat á áhrifum á réttindi fólks, sem ég hefði nú reiknað með að ráðherrann hefði látið gera áður en hann kom með þetta til þingsins. En það er víst ekki alltaf hægt að ætlast til þess.