152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

leigubifreiðaakstur.

470. mál
[14:54]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir framsöguna og ég þakka innilega fyrir að þetta frumvarp sé komið hér fram. Það er óhætt að segja að það er kominn tími til að í íslensku samfélagi sé rýmra frelsi varðandi leigubílamál almennt og meira svigrúm fyrir þá sem vilja fara inn á þann markað, ekki síst í þágu neytenda. Við þekkjum öll að þau takmörkuðu leyfi sem hafa verið hér í leigubílaakstri hafa valdið vandræðum og ég tala nú ekki um þegar fjöldi ferðamanna kemur hingað án þess að leyfunum hafi fjölgað í því hlutfalli. Það er vissulega af mörgu að taka. Fyrst og fremst er frumvarpið hingað komið til þess að standast kröfur EES svo að ekki séu aðgangshindranir hvað varðar samkeppni á þessum markaði. Þrátt fyrir að það sé heilt yfir gott fyrir samfélagið og neytendur, að mínu viti, þá held ég að við þurfum að passa okkur á því að í frumvarpinu felist ekki mögulegar óþarfaaðgangshindranir þegar tilgangurinn er þvert á móti að liðka til.

Mig langaði því að byrja á að nefna það sem komið var inn á með gjaldmæla. Í 9. gr. segir að löggiltir gjaldmælar skuli vera í öllum leigubifreiðum. Við þekkjum frá öðrum sem eru með viðlíka starfsemi ýmis smáforrit og með hjálp tækninnar er hægt að sjá fyrir hvað ferðin verður löng, hvað hún muni kosta o.s.frv. Það er vissulega undanþága ef ferðin er seld fyrir fram, það er hægt að finna eitthvað út úr því. En ég vildi gjarnan fá að heyra frá ráðherra af hverju er að óþörfu verið að niðurnjörva þetta með svokölluðum löggiltum gjaldmælum þegar við þekkjum af reynslunni að önnur tæki eru prýðileg.