152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

leigubifreiðaakstur.

470. mál
[14:56]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka sömuleiðis hv. þingmanni fyrir að spyrja út í þetta atriði. Þarna kristallast kannski þessi breyting sem við erum að gera, við erum að reyna að gera hana í sátt við sem flesta. Gerð er krafa um að mælarnir séu löggiltir en leigubifreiðarstjóri sem tekur leigubifreið getur hins vegar boðið upp á þjónustu og heildargjald og þá notað aðra tækni. Ekki er gerð skýlaus krafa um að þetta sé eina leiðin til að reka leigubifreið. Leigubifreiðar eiga að vera búnar löggiltum gjaldmælum, sem til eru, en einnig er gert ráð fyrir að bifreiðar sem eru seldar á leigu fyrir fyrirframákveðið heildargjald þurfi ekki að vera búnar slíkum gjaldmælum ef þær eru bara í þess konar þjónustu. Þá getur einmitt nýsköpun og ný tækni tekist á við það. Við þekkjum það í dag að ferðir sem geta fallið undir slíkt eru ferðir sem t.d. teljast til ferða með eðalvögnum eða skoðunarferðir.

Frumvarpið leggur til einfaldara fyrirkomulag þar sem ekki er að finna sérstök eðalvagnaleyfi heldur gilda sömu leyfi fyrir slíkan akstur og hefðbundinn leigubifreiðaakstur. Það er því í raun verið að opna fyrir fjölbreytileika.