152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

leigubifreiðaakstur.

470. mál
[15:00]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi stöðvaskylduna þá nefndi ég það í framsögu minni að ég vildi hvetja nefndina til að skoða það, en ég veit að skoðanir eru mjög skiptar. Hv. þingmaður er á þeirri skoðun að menn eigi að ganga mjög langt í frelsisátt og þar með í breytingum á núverandi kerfi en ég skildi þingmanninn engu að síður svo að það væri frelsi með ábyrgð. Hins vegar vilja auðvitað margir af þeim sem eru í greininni engar breytingar. Frumvarpið var unnið upp úr tillögum starfshóps sem m.a. þessir aðilar sátu í og lögðu mikla áherslu á fagmennsku og öryggi farþeganna og á fagmennsku og þekkingu bílstjóranna. Þess vegna hefur frumvarpið gengið býsna langt í því að gera kröfur til bílstjóranna sem að sumu leyti ganga lengra en þær kröfur sem við gerum í dag í lögum en þó sömu reglur um alla. Ég sé enga ástæðu til þess að í reglugerð fari menn að ganga of langt í því og það er mikilvægt að átta sig á því hvar við erum stödd.

Varðandi stöðvaskylduna þá gæti það verið einhver lausn sem myndi hugsanlega valda meiri friði við þessa breytingu. Danir hafa útfært hana þannig að hver og einn getur meira að segja kallað sig stöð þó að hann reki bara einn bíl. Það er útfærsla sem ég hvet nefndina til að skoða. Ég veit að ESA mun hafa fylgjast með því hve langt við göngum en ég held að við séum þarna með tækifæri til að þróa þennan markað okkar, gera það varlega en um leið bæta verulega í þjónustuna. Á meðan við erum ekki búin að samþykkja þetta og breyta er skortur á leigubílum viðurkenndur, held ég. Ég hef þess vegna beðið Samgöngustofu um að athuga hvort hægt sé að gefa út hundrað eða fleiri leyfi núna fyrir sumarið og það er í vinnslu.