152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

leigubifreiðaakstur.

470. mál
[15:02]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Þetta frumvarp um leigubílamarkaðinn er, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, eins og það sem lagt var fram í febrúar en dregið til baka. Eingöngu er um breytingar á greinargerð að ræða. Efnislega verður þessi ræða mín ekki ósvipuð þeirri sem ég hélt við það tækifæri en það er engu að síður þannig að hér er um að ræða lögskýringargögn og því mikilvægt að mínu mati að fara yfir þetta aftur. Þetta er jú í fjórða sinn á starfstíma hæstv. ráðherra sem þetta mál kemur fram og þessi síðustu ár eru auðvitað ekki eins og hefðbundinn tími. Það eru ýmsar skýringar á þessu, sem felast annars vegar í mótstöðu innan þings og innan meiri hlutans við ákveðnar breytingar sem hér eru lagðar til en hins vegar líka þættir eins og kórónuveirufaraldurinn og annað slíkt. Ég vona bara að ráðherra nái að koma þessu í gegn í þetta sinn.

Þetta er í helstu efnisatriðum samhljóða þingsályktunartillögu sem ég lagði fram og mælti fyrir snemma árs 2018. Í sjálfu sér hafa engar breytingar orðið til að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA sem var grunnurinn að þeirri ályktun. Við stöndum þar að þetta mál er kannski fyrst og fremst til komið vegna þess að núverandi staða á markaði hér gengur gegn alþjóðlegum skuldbindingum okkar. Það er því mjög mikilvægt að við náum að klára þetta. Við vitum að þessi samningur um Evrópska efnahagssvæðið stendur vörð um neytendarétt og hann stendur vörð um atvinnufrelsi þannig að það er stórmál ef við erum í þeim aðstæðum að við séum að brjóta þar á.

Frumvarpið er vandað, byggt á skýrslu starfshóps um heildarendurskoðun á íslensku regluverki um leigubifreiðar, og það er mjög gott. Ég ber fullt traust til þess að málið fari í gegn og ekki svo mikið breytt. En það eru samt nokkur atriði sem ég vil nefna, eins og kom svo sem fram í máli ráðherra. Mig langar að taka undir athugasemdir Samtaka atvinnulífsins og Félags atvinnurekenda varðandi það að skilyrði til atvinnuleyfis og rekstrarleyfis séu enn fullströng í þessu nýja frumvarpi og að það hamli að ákveðnu leyti atvinnufrelsi einstaklinga. Einnig var gerð athugasemd við að rekstrarleyfishafar geti einungis rekið eina leigubifreið hver og ég tek undir þá athugasemd. En við stöndum frammi fyrir því að ræða leigubifreiðaþjónustu sem er í grunninn almenningssamgöngumál, og það þarf að ræða þetta sem slíkt. Það er alltaf rúm fyrir umbætur í slíku kerfi, það er breytingum undirorpið. Það á ekki síst við núna þegar við heyrum raddir fjölda fólks sem er í vandræðum með að nýta þjónustu leigubíla, sérstaklega seint á kvöldin og um helgar. Það er enginn vafi á því að víðtækar hömlur í núgildandi lögum hafa mikið um það ástand að segja. Auðvitað er það öryggisatriði að við höfum greitt aðgengi að leigubílum þegar fólk er á leið úr miðbæ Reykjavíkur seint um nætur og auðvitað á það við um aðra staði líka. Til þess að leigubílstjórar geti sinnt hlutverki sínu á þessum almenningssamgangnamarkaði, á hluta þessa kerfis okkar, þarf þjónustan einfaldlega að vera aðgengileg. Hún þarf að vera til staðar þegar fólk kallar eftir henni og hún þarf að vera á viðráðanlegu verði. Ég tilheyri þeim hópi fólks sem trúir því að heilbrigð samkeppni sé lykillinn að því að ná þessum markmiðum án þess þó að menn klikki á því að standa undir þeirri ábyrgð sem fylgir því að sinna slíkum rekstri. Að sama skapi er auðvitað þessi lögbundna fákeppni til þess fallin að hækka verð til neytenda. Ef samkeppnin verður virk, ef þetta gengur upp, er auðvelt að sjá fyrir sér að í samhengi við aðrar úrbætur sem verið er að gera í almenningssamgöngum eigi fleiri þess kost að leggja einkabílnum varanlega — og nú koma hástafir: Ef þeir kjósa svo. Þeir geta þá nýtt leigubíla og strætisvagna og aðrar almenningssamgöngur til að sinna sínum erindagjörðum með minni tilkostnaði og minna álagi á kerfið okkar, m.a. með meira plássi fyrir bílana, fyrir þá sem vilja keyra einkabílana. Þetta hangir allt saman. Það sem ég er að reyna að segja er að leigubílakerfi sem virkar vel, og það virkar ekki vel nema það virki fyrir fólk þar sem það þarf leigubíla og þegar það þarf þá, er stór hluti, mikilvægt púsl, í almenningssamgöngukerfið okkar og samgöngukerfið í heild.

Í frumvarpinu, eins og kom fram í máli ráðherra og í andsvörum við hann, er enn gert ráð fyrir að aðili geti ekki átt fleiri en einn bíl til leigubílaaksturs, hann verði að vera einstaklingur. Þessu hefur ekki verið breytt frá fyrri flutningi frumvarpsins. Ég skil ekki alveg af hverju þetta þarf enn að vera inni. Ég átta mig ekki á hver kosturinn við það er. Ég hefði haldið að það væri nóg að bifreiðin uppfyllti þau skilyrði sem leigubílar þurfa að uppfylla. Ef bíllinn uppfyllir þau skilyrði, af hverju má viðkomandi einstaklingur þá ekki eiga fleiri bíla?

En það eru tvær mikilvægar réttarbætur í frumvarpinu. Það er annars vegar afnám hámarkstakmörkunar á heildarfjölda útgefinna atvinnuleyfa fyrir leigubifreiðar enda eru engin rök fyrir ríkið að vera þannig að stýra framboði á þessari þjónustu umfram alla annars konar þjónustu. Það er engin ástæða að mínu mati til að hafa áhyggjur af því að markaðurinn nái ekki jafnvægi, þ.e. á milli framboðs og eftirspurnar. Það gerir það á mörgum miklu flóknari, viðkvæmari og fjármagnsfrekari mörkuðum. En við þurfum auðvitað að hafa reglur. Við þurfum að hafa reglur eins og við þurfum að hafa um alla starfsemi sem við viljum að sé faglega unnin og viljum að fyllsta öryggis sé gætt. En ég tel að hægt sé að tryggja fagmennskuna án þess að hafa þessar takmarkanir. Þetta er því góð réttarbót. Ég átta mig hins vegar á því, og geri ekki lítið úr því, að þetta er annað þeirra atriða sem leigubílstjórar í núverandi kerfi hafa gagnrýnt mjög mikið. Ég treysti því bara að hv. umhverfis- og samgöngunefnd, þegar hún fær málið til umfjöllunar, sýni þeirri gagnrýni virðingu og fari vel yfir málin, þ.e. að réttmæt rök séu rædd og það sé þá líka reynt að koma með rök á móti, að samtalið eigi sér stað.

Síðan er það hin réttarbótin sem er í þessu frumvarpi en hún felst í því að reglur um gjaldmæla eru loksins endurhugsaðar. Verði þetta frumvarp að lögum með þessari réttarbót verður neytendum gert fært að semja um verð fyrir fram. Þeir geta fengið verðtilboð og jafnvel séð í smáforriti leiðina sem verður ekin og síðan endanlegan heildarkostnað og ég veit að í einhverjum tilfellum er hægt að fara nálægt þessu núna, en það virkar illa og seint fyrir marga þannig að klárlega er hægt að bæta verulega úr þessu. Aftur eru þetta þættir sem lúta að viðskiptafrelsi, samningsfrelsi og neytendavernd. Það eru gríðarlegar tækniframfarir í framboði á þessari þjónustu og það að þvinga leigubíla til að nota gjaldmiðla hamlar þeirri þróun í raun og veru, þ.e. hvernig greiðslu er háttað og samningar nást. Þetta er lykilþáttur í því t.d. að opna íslenskan markað fyrir þjónustufyrirtækjum sem við þekkjum mörg af góðri reynslu í erlendum borgum. Á köflum hefur verið mjög sérstök umræða um þessa tilteknu þjónustu þar sem menn hafa allt að því fegins hendi gripið, þeir sem ekki vilja sjá breytingar á þessum markaði, fréttir um eitthvað sem hefur misfarist einhvers staðar, í einhverjum borgum eða á einhverjum stöðum, hjá einhverjum fyrirtækjum. En stóra myndin er sú að þetta er stórt hagsmunamál fyrir neytendur. Við erum hér með þessu frumvarpi, eins og ég hef a.m.k. náð að fara yfir það, að setja þannig reglur að það er skýrt að menn þurfa að sýna ábyrgð og þá er ekkert að óttast, það er einfaldlega þannig. Við munum sjá það, trúi ég. Þjónustan sem þessi fyrirtæki veita byggir á grundvelli samningsfrelsis og kostum deilihagkerfisins og aftur komum við að því að þessar samgönguumbætur sem við erum að vinna hér að, ekki síst í borginni, munu ekki ná að raungerast nema við tökum framþróun á leigubílamarkaði með í reikninginn.

Herra forseti. Þó að ég hafi fyrst og fremst verið að tala um hagsmuni neytenda þá læt ég mér hagsmuni bílstjóranna ekki í léttu rúmi liggja. Það er einfaldlega þannig að það er eitthvað til sem heitir atvinnufrelsi og það krefst þess m.a. að ekki sé verið að takmarka rétt þeirra til að skapa sér hærri tekjur með auknu sjálfstæði í starfi og frelsi til að velja hvort þeir starfi fyrir stöð eða hvernig þeir verðleggja þjónustu sína. Það er síðan mikilvægt að lækka opinber gjöld sem lögð eru á þessa atvinnugrein en þau halda uppi verðinu.

Ef ég súmmera þetta upp: Til að leigubílar geti sinnt mikilvægu hlutverki sínu í almenningssamgöngukerfinu þarf þjónustan að vera aðgengileg og á viðráðanlegu verði og heilbrigð samkeppni er lykillinn að því að ná þeim markmiðum. Þegar búið er að uppfylla þau gætu fleiri lagt einkabílnum varanlega, kjósi þeir að gera svo, og nýtt strætisvagna og leigubíla. Þetta er myndin sem við erum að leita eftir. Mér finnst spennandi að sjá hvernig frumvarpið verður unnið áfram í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Það er auðvitað svo að við stöndum hér um miðjan maí og höfum ekki langan tíma til stefnu til að klára þetta fyrir vorið. En ég tel mjög mikilvægt að það náist vegna þeirra umbóta sem hér eru og líka vegna þess að það er ekki gott að láta svona mál hanga jafn lengi og þetta hefur gert. Þetta með hámarksfjölda starfsleyfa hefur líka sætt mikilli gagnrýni leigubílstjóra. Ég held að óhætt sé að treysta því að hv. umhverfis- og samgöngunefnd ræði þau mál sem helst hafa hlotið gagnrýni þeirra sem stunda leigubílaakstur og nái einhvern veginn sameiginlegum skilningi á því að þetta séu jákvæðar breytingar fyrir þá sem starfa í greininni og þá sem nýta þjónustuna, en það eru náttúrlega stóru hagsmunaaðilarnir.

Ég held að ég láti þessu lokið. Ég hlakka til að fylgjast með vinnunni og óska þess einlæglega að þetta mál verði að lögum fyrir sumarið.