152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

leigubifreiðaakstur.

470. mál
[15:14]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins til að deila með ykkur, hv. þingmenn, reynslu minni af leigubílaþjónustu í því samhengi að margs beri að gæta þegar verið er að tala um leigubílaakstur. Ég dvaldi í nokkra mánuði í Buenos Aires. Þar eru yfir 40.000 leigubílar á götunum. Maður labbar bara út á götu og réttir út höndina og þá er kominn bíll og hann er á mjög sanngjörnu verði, ekkert mál, enda nota þetta flestir. Þegar ég er í New York fer ég annaðhvort í Uber eða taxi, þ.e. leigubíl, og þjónustan er nánast jafn góð hjá báðum, bílarnir hjá Uber eru oft aðeins betri, aðeins skemmtilegri. Í London er það þannig að til þess að fá leigubílaréttindi þurfa menn að keyra í sex mánuði á götum borgarinnar og læra nánast allar götur utan að og þær skipta þúsundum, hugsa ég. En þeir sem keyra fyrir Uber þurfa ekki að kunna neitt, þeir nota bara GPS. Í Los Angeles er það þannig að maður notar ýmist Uber eða bílaleigubíl, það hvarflar ekki að nokkrum manni að taka leigubíl þar. Í Róm er það þannig að í 90% tilfella sem ég hef tekið leigubíl var alltaf reynt að svindla á mér. Það er svolítið atriði að gæta þess að þeir sem keyra hafi siðferðið í lagi. Í Ósló var það þannig árið 2015 að það kostaði 32.000 kr. að fara frá flugvellinum og inn í bæ sem er alveg fáránlegt verð.

Það sem ég vildi segja við ykkur er: Það er margs að gæta og leigubílar í Reykjavík eru frekar dýrir. En þeir verða að vera dýrir vegna þess að bensín er dýrt, bílarnir eru dýrir og það er dýrt að lifa á Íslandi. Ég hef þá tillögu að leigubílstjórum verði gert kleift að kaupa bensín á niðursettu verði.