152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

leigubifreiðaakstur.

470. mál
[15:25]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Þann 1. mars á þessu ári hélt ég ræðu og ég ætla ekki að lesa hana alla fyrir ykkur, kannski sem betur fer. Ég vil bara ítreka að ég hélt ræðu um þetta sama mál. Þá sagði ég: Ég veit eiginlega ekki hvort ég á að vera pirruð eða þakklát fyrir að við séum að ræða þetta mál núna í þriðja skiptið, — sem er þá núna í fjórða skiptið — pirruð yfir því að við séum ekki löngu búin að afgreiða það. En einnig velti ég fyrir mér: Þurfum við sérstök lög um leigubílaakstur? Er það eitthvað sem er algerlega nauðsynlegt eða voru þessi lög kannski sett á sínum tíma þegar við vorum í allt öðru umhverfi? Í ræðu minni var ég að fjalla um það að við værum með lög um farþega- og farmflutninga og ég velti því hreinlega fyrir mér hvort ekki væri einfaldara að vera með einn skýran og einfaldan lagabálk um slíkan akstur og að ekki sé þörf á sérstökum lögum um leigubílaakstur.

Ég styð þetta mál og vona að hv. umhverfis- og samgöngunefnd takist að afgreiða málið úr nefndinni og við getum afgreitt það sem lög frá þingi áður en við gerum hér sumarhlé. Mig langar á sama tíma að ítreka að sá þingmaður sem hér stendur vill ganga lengra í frelsisátt og finnst mikilvægt að atvinnufrelsi einstaklinga sé virt. Ég held að við getum vel gert það þrátt fyrir að vera með ákveðnar reglur sem lúta að öryggi.