152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

leigubifreiðaakstur.

470. mál
[15:27]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Hér er á ferðinni gagnmerkt frumvarp sem á rætur sínar í ábendingum frá ESA um að við þurfum að afnema aðgangshindranir í atvinnugreininni sem snýst um leigubílaakstur og uppfylla þannig skyldur okkar samkvæmt EES-rétti. Ég er í prinsippinu algjörlega fylgjandi því að afnema þessar aðgangshindranir. Atvinnuleyfi eru takmörkuð auðlind ef þannig má að orði komast. Þessi atvinnuleyfi eru það sannarlega og okkur ber, í þessari atvinnugrein eins og öðrum, að stuðla að því að sem flestir hafi aðgang að því að stunda þá atvinnu sem þar er stunduð og í þessu tilviki er það leigubílaakstur eins og allir í þessum sal vita. Eins og fram hefur komið í máli hv. þingmanna þá hefur verið óstand, ef svo má segja, á höfuðborgarsvæðinu á framboði leigubíla á undanförnum misserum. Í heimsfaraldrinum dró eðlilega úr þeirri þjónustu og menn skiluðu inn atvinnuleyfunum sínum og reyndu að finna sér annað að gera enda voru sóttvarnaráðstafanir með þeim hætti.

Nú horfum við fram á batnandi tíð með blóm í haga, fjölgun erlendra ferðamanna og vonandi fleiri borgara sem kjósa sér lífstíl án einkabílsins og nota þar af leiðandi almenningssamgöngur, hvort sem það eru almenningsstrætisvagnar eða leigubílar eða annar fararskjóti. En ég vil að það komi fram í upphafi, vegna þess að hér áðan var bent á að niðurgreiða þyrfti eldsneyti til þessarar atvinnustarfsemi, að ég tel það mjög varhugavert og það gengur gegn öllum markmiðum okkar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. En við eigum auðvitað að rafvæða leigubílaflotann eins og hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson hefur reyndar lagt til í sérstakri tillögu hér á hinu háa Alþingi.

Ég kem hér upp til að nefna atriði sem ég hygg að hv. umhverfis- og samgöngunefnd þurfi að huga sérstaklega að og það er jafnvægi framboðs og eftirspurnar og ólíkar aðstæður á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og í þéttbýliskjörnum úti um landið hins vegar. Þá tek ég dreifbýlið eiginlega út fyrir sviga af því að við vitum að það mun tæpast standa undir sér að reka leigubílaakstur í dreifbýli á Íslandi. Og hvers vegna geri ég það? Ég geri það vegna þess að í nágrannalöndum okkar, og dæmi sem mig langaði að nefna er Noregur, eru undanþágur frá þessu algjöra afnámi. Þær varða það að sérstaklega í smærri sveitarfélögum — ef ég man rétt miða Norðmennirnir við 20.000 manns og einhvern tiltekinn þéttleika í byggð — má vera með fjöldatakmörkun. Og hvers vegna skyldi það vera? Það er til þess að halda úti nægilegri þjónustu.

Við vitum að hingað til hafa atvinnuleyfin verið þannig að leigubifreiðastjórar þurfa að halda úti þjónustu í tiltekinn dagafjölda og sú hætta, og það kemur fram í umsögnum bifreiðastjóra sem hafa verið til umfjöllunar í nefndinni, er vissulega fyrir hendi að annars muni menn velja að sinna starfi sínu þegar mest er að gera — við vitum svo sem nokkurn veginn hvenær það er hér á höfuðborgarsvæðinu — og kannski draga úr úthaldinu á öðrum tímum sem eru utan háannatíma. Það eru kannski tímarnir sem aðrir þjóðfélagshópar en þeir sem nýta leigubíla mest um kvöld og nætur þurfa á þjónustu leigubílanna að halda.

Ég beini því til hv. þm. Vilhjálms Árnasonar, formanns hv. umhverfis- og samgöngunefndar, að skoða þetta og að nefndin velti því fyrir sér hvaða afleiðingar þetta geti haft. Við verðum auðvitað að horfast í augu við það að aðstæður eru allt aðrar á höfuðborgarsvæðinu en úti um landið og í landsbyggðunum, og við þurfum einfaldlega að taka tillit til þess í þessum breytingum. Við ættum að íhuga það alvarlega að skoða ábendingar frá atvinnubílstjórum um það hvernig við tryggjum þessa nauðsynlegu þjónustu um allt land. Það hlýtur að vera markmiðið og við hljótum líka að þurfa að hafa það í huga að á þessari stundu, þó svo að við getum skoðað áhrif og afleiðingar þessa fyrirkomulags í nágrannalöndum okkar, vitum við ekki nákvæmlega hverjar afleiðingarnar verða fyrir jafnvægið á milli framboðs og eftirspurnar hér á landi. Og þetta er eitthvað sem er í raun neytendavernd, snýst um almannahagsmuni, snýst um að allir þjóðfélagshópar geti nýtt sér þessa þjónustu, geti nýtt sér þjónustu atvinnubílstjóra, leigubílstjóra, og að við tryggjum að ekki verði einhver svarthol í þessu fyrirkomulagi þannig að t.d. í ákveðnum landshlutum verði beinlínis ekki hægt að nýta þessa þjónustu eða að hún sé ekki fyrir hendi.

Erindi mitt hér upp í dag var að að brýna fyrir hv. umhverfis- og samgöngunefnd að skoða þetta atriði mjög vel. Að öðru leyti hygg ég að margt í frumvarpinu sé til mikilla bóta og horfi til frjálsræðis og sérstaklega það að afnema þessar aðgangshindranir. Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi að það eigum við auðvitað að gera í öllum atvinnugreinum.