152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

húsaleigulög.

572. mál
[16:05]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ábendingarnar og fyrirspurnirnar. Mér finnst sjálfsagt að þingnefndin kalli alla hagaðila fyrir til að ræða áhrif málsins. Ég er ekki í nokkrum vafa um það sjálfur að allir verða sammála um að þetta sé mikil réttarbót. Ég mun líka fljótt verða sammála hv. þingmanni um að það verða einhverjir sem telja að ganga hefði átt lengra og að eitthvað allt annað hefði átt að standa í frumvarpinu og um aðra hluti. Hér er fyrst og fremst verið að taka á tvennu, annars vegar þessari skráningarskyldu, sem ég er ekki í nokkrum vafa um að mun hjálpa verulega til og bæta réttarstöðu leigjenda, og hins vegar eru það úrbætur á brunavörnum. Það eru líka tillögur sem hafa farið í gegnum starfshópa og talsvert samráð hefur verið haft um hvað sé gott að gera til þess að bæta vitund, bæði leigjanda og leigusala, við gerð leigusamnings og tryggja að aðstæður séu með skýrum hætti. Ég geri mér alveg grein fyrir því að einhverjir vilja að aðrir hlutir standi í þessu frumvarpi. Mér finnst bara mikilvægt að við stígum þetta skref núna og ég vildi óska þess að við hefðum náð því fyrr því að þá hefðum við betri upplýsingar til að stýra þeirri stefnumótun sem við erum í og munum fara í í sumar og í haust, og erum reyndar í þessar vikurnar. Þar munum við leita samráðs við alla hagaðila á markaði til þess að geta styrkt réttarstöðu leigjenda sem ég held að við séum öll sammála um að er mikilvægt. En við þurfum líka að tryggja framboð og þar með getum við heldur ekki gengið um of á rétt leigusala og takmarkað frelsi þeirra til athafna.