152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

húsaleigulög.

572. mál
[16:07]
Horfa

Helga Þórðardóttir (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og heyri að hann er tilbúinn að að taka Leigjendasamtökin með í samráð og ég er afskaplega glöð með það. En það var eitt sem ég hjó eftir, og það er jákvætt, þ.e. að aðilar geti einhliða fari fram á óháða úttekt á leiguhúsnæði. Ég tel mikilvægt að tryggt verði að leigusalar misnoti ekki ákvæðið á þann veg að ávallt verði farið fram á úttekt óháðs aðila og leigutakar verði því ávallt að borga fyrir óháða úttekt. Ég held að skynsamlegra sé að reglan hljóði á þann veg að ef leigutaki óski óháðrar úttektar skuli kostnaður skiptast jafnt en þegar leigusali óski úttektar skuli hann einn bera kostnað. Ég er ein af þeim sem óttast að þetta bæti engu við varðandi leiguverð og áfram verði leigjendur berskjaldaðir fyrir hentistefnu leigusala sem ákveða leiguverð einhliða. En ég veit að þetta frumvarp á vissulega að marka fyrsta skrefið í endurskoðun húsaleigulaga á kjörtímabilinu og vil ég bara hvetja menn áfram til dáða. Takk fyrir.